151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Við deilum skoðun um mikilvægi þessa máls og höfum átt ófá samtöl um akkúrat um þessi mál og efni þeirra og hvernig best sé að styrkja fjölmiðla á Íslandi. Ég hef nefnilega verið sérstaklega ánægður með það að við séum, bæði í alþjóðlegu samstarfi okkar og heima fyrir, að skoða þátt þessara erlendu efnisveitna. Ég held að við eigum að vera óhrædd við að skoða allar leiðir í því, hverjar sem þær eru, hvort sem það er í gegnum fjármálakerfið, skattkerfið eða að við gerum einhverjar þær breytingar að kostnaður við auglýsingar verði ekki lengur frádráttarbær o.s.frv. Ýmislegt er hægt að gera.

Ég hef líka verið sérstaklega ánægður með það að við höfum borið gæfu til að horfa til þess að styrkja fjölmiðla eina og sér, ekki velta endilega fyrir okkur efni þeirra og innihaldi því að stjórnmálafólk sem er bara tilbúið til að styðja fjölmiðla sem tala vel um það er ekki að vinna vinnuna sína. Ég varð fyrir vonbrigðum með umræðuna í sumar, þegar við náðum í gegn styrkjum til einkarekinna fjölmiðla, sumir ræddu það þannig að það skipti máli hvaða fjölmiðlar það væru sem fengju ákveðinn stuðning, í staðinn fyrir að horfa heildstætt á myndina, abstrakt, ef ég leyfi mér að sletta, óhlutlægt, ætli það sé ekki orðið sem ég lærði í íslensku á sínum tíma. Það verður að styrkja lýðræðislega umfjöllun og hlutverk lýðræðislegrar umfjöllunar er þannig að stundum líkar mönnum ekki alltaf það sem þar er. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar, og veit að hæstv. ráðherra deilir þeirri skoðun með mér, að við eigum að styrkja fjölmiðla, styrkja lýðræðislegu umræðuna á íslensku og upp úr því sprettur heilbrigðara umhverfi.