152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:38]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Raddir ungs fólks hafa sjaldan verið jafn áberandi og í tengslum við baráttuna við loftslagsvána. Mig langar samt að velta því upp hér hvort ungt fólk fái raunverulega nógu mikið vægi til að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun sem varðar þeirra framtíð. Við könnumst flest við hugtakið grænþvott, en í samhengi loftslagsaðgerða þá velti ég fyrir mér hvort tala mætti um æskuþvott, því að þó að við höfum öll heyrt áköllin um aðgerðir þá hefur það ekki skilað sér í þeim kerfisbreytingum sem ungt fólk kallar eftir.

Frú forseti. Ég segi ekki að hér ríki algjör kyrrstaða í loftslagsmálum. Markmið um kolefnishlutleysi og markmið ríkisstjórnarinnar um sjálfstætt markmið Íslands um 55% samdrátt í losun eru vissulega stór skref, en nú tekur við vinna við að skilgreina hvað felst í þessum markmiðum og hvaða vörður við setjum í áttina að lágkolefnissamfélagi framtíðarinnar. Þessar skilgreiningar verða lykillinn að raunverulegum árangri okkar í að trappa niður losun, því að það er stór munur á kolefnishlutleysi sem tekur t.d. tillit til landnýtingar eða ekki. Hæstv. ráðherra hefur lagt mikla áherslu á orkuskiptin, en þau eru einungis einn vettvangur baráttunnar gegn loftslagsvá. Sú barátta gerist á öllum sviðum samfélagsins.

Frú forseti. Útkomuskjal loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna í Glasgow kveður skýrt á um virka þátttöku ungs fólks á öllum sviðum ákvarðanatöku og í stefnumótun í loftslagsmálum. Það er mikilvægt að við gætum þess að þessi þátttaka sé á grundvelli sértækrar þekkingar ungs fólks og ekki táknræn eða áhrifalaus. Við þurfum nefnilega að gera meira en bara að hlusta. Við þurfum að gefa ungu fólki raunverulegt sæti við borðið því að framtíð þeirra veltur á þeim stefnum sem við mótum í dag.