152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ágreiningur okkar við ríkisstjórnina í loftslagsmálum felst í því að manni finnst stundum eins og það vanti samhengið á milli orða og athafna. Ég sakna þess líka að ríkisstjórnin fjalli um heildarsamhengið því að það er mikilvægast að horfa á stóru myndina í stað þess að vera í þeim sporum að móta sér stefnu eftir punktstöðu hverju sinni. Fyrirheit um orkuskipti þurfa að fylgja, t.d. hvernig á að tryggja framboð og hvernig á að stuðla að afhendingu raforku. Í því sambandi þarf nauðsynlega að styrkja flutningskerfið sjálft.

Allt síðasta kjörtímabil var það þannig að orkumálaráðherra og umhverfisráðherra sátu með hendur í skauti. Ég held að þessi kyrrstaða hafi ekki stafað af skorti á undirbúningi eða vegna þess að upplýsingar um stöðu mála lágu ekki fyrir. Ástæðan var pólitísk. Samkomulag stjórnarflokkanna var einfaldlega um það að gera sem minnst. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í samfellt níu ár stjórnað orkumálunum. Engu að síður virðist ríkisstjórninni í dag koma það á óvart hvernig staðan er á flutningskerfi raforku. Fyrirtæki á landsbyggðinni hafa í langan tíma búið við það að geta ekki gengið að nægilega áreiðanlegri orku og þurft að reiða sig á olíu. Heilu landsvæðin hafa búið við það að vera ekki með tryggan aðgang að rafmagni sem svarar þörf heimila og fyrirtækja. Engu að síður nota heimilin í landinu bara um 5% raforkunnar.

Markmiðið á næstu 18 árum er að við verðum fyrst þjóða til að losa okkur að fullu við jarðefnaeldsneyti. Þetta er djarft markmið, gott markmið og því er hægt að ná með skýrri hugmyndafræði, með því að skýra ábyrgð aðila, útfæra leikreglur markaðarins og tryggja að kerfið virki óháð árferði. Ég held að við getum náð þessum markmiðum, en hér myndi vissulega hjálpa ef ríkisstjórnin gæti sameinast um sameiginlega hugmyndafræði, því að það er helsti veikleiki þessarar stjórnar, hún getur illa markað skýra stefnu. En við ætlum að standa vaktina, styðja stjórnina í góðum verkum og veita kröftugt aðhald þegar þess þarf.