152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[15:04]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hér allra fyrst langar mig bara rifja upp að það voru Samtök um kvennalista sem komu fyrst inn á hið pólitíska svið hér á landi með loftslagsmálin. Kannski er rétt að minna á að þetta er enn eitt af þeim málum þar sem við hefðum betur hlustað á þær. (Gripið fram í: Hallelúja.) Mér heyrist við öll vera sammála um að þetta sé mikilvæg umræða og ég held að við hefðum gott af því að eiga umræðu um loftslagsmál reglulega hér á þingi eins og hæstv. ráðherra þekkir úr fyrra starfi sínu sem utanríkisráðherra þar sem er mjög jákvætt að eiga þá umræðu einu sinni, tvisvar á ári til að halda okkur við efnið.

Ég rifja upp að fyrir ári þá var ég einmitt hvatamaður að sérstakri umræðu um landsmarkmið Íslands sem þá voru komin rúmt ár fram yfir skilafrest. Sú umræða hafði meira að segja þau áhrif að ráðherra dustaði rykið af tillögunum og sendi til Sameinuðu þjóðanna þann sama dag þannig að hann gat mætt í hús með árangur í farteskinu. Ég hefði óskað þess að sama yrði uppi á teningnum núna.

Hæstv. ráðherra talar um að Ísland vilji skipa sér í hóp þeirra ríkja sem draga vagninn í loftslagsmálum. Danmörk er búin að lögfesta markmið um 70% samdrátt í losun. Noregur er með sjálfstætt landsmarkmiði um 50–55%, Svíþjóð 63%, Finnland ætlar að vera kolefnishlutlaust fimm árum á undan Íslandi. Ísland rekur lestina á Norðurlöndunum. Ég spurði hæstv. ráðherra út í það hvernig hann ætlaði að útfæra 55% markmiðið úr stjórnarsáttmálanum fyrir tveimur mánuðum í umræðum um fjárlög og fékk þá þau svör að hann ætlaði ekkert að úttala sig um það á þeim tímapunkti. Það þyrfti samráð og alls konar. Núna segir ráðherrann að hann sé ekki kominn á þann stað að ákveða hvernig hann ætli að gera þetta — (Forseti hringir.) eða hvort, ef ég skil ráðherrann rétt. Skilafresturinn er, eins og ég nefndi áðan, 7. febrúar og mig langar þess vegna að spyrja: Ætlar ríkisstjórnin ekki örugglega að uppfæra landsmarkmið sín til loftslagssamnings (Forseti hringir.) Sameinuðu þjóðanna eins og öll ríki heims þurfa að gera fyrir haustið?