152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en ég held að hann hafi ekki komið inn á það í hverju þessi þjónusta er fólgin. Hverju er verið að bæta við þegar kemur að hælisleitendum sem fá dvalarleyfi? Mér finnst mjög óljóst í þessu frumvarpi hver raunveruleg áhrif þess eru, og ég held að það sé mjög mikilvægt að fá svör við því. Það hlýtur líka að kosta eitthvað að útvíkka þessa þjónustu. Það getur ekki verið að það kosti bara þau stöðugildi sem hér er rætt um, einhver þrjú stöðugildi, held ég, það hlýtur að kosta eitthvað að auka þjónustuna. Það hlýtur að vera einhver áætlun um það hver sú upphæð er, auk þess sem spár gera ráð fyrir því að hælisleitendum muni fjölga mjög hratt á komandi árum, að fjöldi umsókna muni tvöfaldast á næstu þremur til fjórum árum. Það hlýtur því að vera einhver kostnaðarhluti sem skiptir máli og þarf að vera í þessari umræðu.