152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég hef sagt að það væri ómannúðlegt hvernig tekið væri á móti flóttamönnum hef ég mismælt mig. Það er ómannúðlegt hvernig tekið er á móti hælisleitendum. Ég hef alls ekkert út á flóttamannanefnd að setja, nema það mætti taka á móti fleiri flóttamönnum en alls ekki það hvernig fólk hefur verið meðhöndlað. Ég er líka sammála hv. þingmanni í því að það er mikilvægt að við tökum vel á móti þeim sem hingað koma og það er mikilvægt að samræmi sé milli þess hvernig við tökum á móti hælisleitendum og flóttamönnum vegna þess að við höfum tekið mjög vel á móti flóttamönnum. Sveitarfélögin eiga virkilega þakkir skildar fyrir það hvaða hlutverki þau hafa gegnt í því að taka á móti flóttamönnum og þau hafa virkilega tekið fólk inn í samfélagið. Það er rosalega mikilvægt. Það er meira en að segja það að koma hingað á hjara veraldar. Og jú, ég er sammála því að það eigi að samræma þetta, en það sem ég gagnrýni er hvernig við meðhöndlum hælisleitendur áður en þeir hljóta samþykki og áður en þeir detta inn í það ferli sem hér er verið að ræða, sem er eftir að þeir eru búnir að fá dvalarleyfi. Það er það sem gerist áður en dvalarleyfið er veitt, það er þar sem ég tel að stjórnvöld hafi sýnt fólki ómannúðlega framkomu.