152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að heyra hv. þm. Birgi Þórarinsson tala hér í andstöðu við frumvarp stjórnarinnar. Ég hélt að hann væri í stjórnarliðinu en ekki í stjórnarandstöðunni, eða á móti því sem stjórnin er að gera. En mig langaði að leiðrétta dálítið sem hv. þingmaður sagði um að hingað kæmi fullt af fólki sem væri að leita eftir vinnu eða einhverju slíku. Þegar maður skoðar þær tölur sem Útlendingastofnun gefur út kemur í ljós að yfir helmingur þeirra sem hingað koma, vel yfir helmingur, kemur frá stríðshrjáðum löndum eins og Palestínu, Afganistan, Sýrlandi, Írak og Sómalíu. Það er eitt land í viðbót sem kannski væri hægt að nefna í sambandi við það að fólk væri að leita sér að betri vinnu, það eru þeir sem eru að flýja frá Venesúela en þeir eru næstum því fleiri en frá öllum hinum löndunum samanlagt. Það er góð ástæða fyrir því, það þarf enga vegabréfsáritun til að komast til Íslands ef þú ert ríkisborgari í Venesúela. Það væri hægt að einfalda þetta og stoppa þetta á mjög auðveldan hátt. Það er líka mjög athyglisvert að sjá að í tölum um hverjir fá dvalarleyfi hér á landi eru aðilar frá Venesúela í miklum meiri hluta. Það er mjög góð skýring á því, það er vegna þess að ekki er hægt að nýta sér Dyflinnarreglugerðina til að henda viðkomandi úr landi. Ég spyr því hv. þingmann: Hvaðan eru allir þessir aðilar sem eru að leita sér að vinnu að koma?