152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég sagði reyndar aldrei að stríðið í Sýrlandi væri búið en ég vildi svo sannarlega óska þess. Það er nú einu sinni þannig, og ég hef ítrekað það hér, að það hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því að Ísland er komið á kortið þegar kemur að því að sækja um alþjóðlega vernd. Á sama tíma eru Norðurlöndin að skipta um stefnu í þessum málaflokki, læra af sinni reynslu og herða reglur. Það er mín persónulega skoðun að við eigum að fylgja Norðurlöndunum í þessum málaflokki. Það er eitthvað að hér þegar við sjáum að margfaldur fjöldi sækir um hér, hlutfallslega, miðað við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Við veitum bestu þjónustuna, hv. þingmaður, í Evrópu. Ég hef fundað með þeim sem vinna í þessum málaflokki og þeir hafa sagt mér að verið sé að misnota þetta kerfi. Þú getur ekki sagt, hv. þingmaður, að ég tali bara út í bláinn. Ég hef fengið þessar upplýsingar frá þeim sem vinna í þessum málaflokki. Það eru einstaklingar sem sækja kannski um fjórum til fimm sinnum en fá alltaf neitun. Er eðlilegt að einstaklingur geti komið fjórum til fimm sinnum og farið inn í þetta kerfi, verið í marga mánuði á kostnað skattgreiðenda og fengið synjun í fjórða sinn? Nei, það er ekki eðlilegt.

Og hvers vegna má ekki ræða þessa hluti, hv. þingmaður? Hvers vegna að vera að æsa sig þegar maður vill að kerfið sé skilvirkt, að fjármunirnir séu sem best nýttir? Við ræðum um heilbrigðiskerfið, hvað megi betur fara, hvar megi spara, hvar vanti fjármuni. En þegar kemur að hælisleitendakerfinu — nei, þá má bara alls ekki ræða það að hugsanlega sé verið að misnota það kerfi, að hugsanlega sé hægt að laga það. Ég skil það ekki.

Ég hef setið í fjárlaganefnd, ég veit alveg í hvað peningarnir fara, en ég vil líka nýta þá sem allra best. Það er hægt að gera með öðrum hætti eins og t.d. að styðja við stofnanir sem vinna á alþjóðlegum vettvangi við að aðstoða flóttafólk, svo að dæmi sé tekið.