152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Hér erum við í 1. umr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð, eins og það heitir í þessari ferð. Það varð breyting á milli frá því að málið var lagt fram á síðasta þingi en þá hét málið frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, móttaka flóttafólks og innflytjendaráð. Hér er fjallað um einstaklinga með vernd í stað þess að nota hugtakið flóttafólk.

Undir andsvörum við hæstv. ráðherra, sem mælti fyrir frumvarpinu fyrr á þessum þingfundi, komu fram nokkrar spurningar sem hæstv. ráðherra vannst ekki tími til að svara og það eru auðvitað atriði sem þarf að skoða sérstaklega í hv. velferðarnefnd þegar málið hefur verið sent þangað. Ég man eftir því úr umræðunni í fyrra að þá var því haldið fram af hæstv. þáverandi ráðherra málaflokksins að hér væri verið að færa fyrirkomulag þessara mála til sama horfs og væri í hinum norrænu löndum. Það þarf að skoða sérstaklega hvort sú staðhæfing standist, hvort það sé raunin að einstaklingar sem hafa hlotið vernd njóti sömu réttinda og kvótaflóttafólk sem kemur til hverrar þjóðar undir því regluverki sem þar á við.

Ég spurði hæstv. ráðherra þá sömuleiðis hvort dómsmálaráðuneytið, sem heitir í dag innanríkisráðuneyti, hefði verið með í ráðum hvað varðar möguleg áhrif á það sem í daglegu tali er kallað „pull factor“, sem sagt hvatann til umsókna í tilteknu landi á grundvelli mismunandi reglna og annarra réttinda og skyldna sem umsókn og meðhöndlun umsóknar fylgja. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu en ef horft er til greinargerðar frumvarpsins þar sem fjallað er um samráð þá kemur hér, með leyfi forseta:

„Frumvarpið snertir fyrst og fremst heilbrigðisráðuneytið, Fjölmenningarsetur og einstaklinga með vernd á Íslandi. Áform um gerð frumvarpsins voru einnig kynnt öðrum ráðuneytum.“

Hv. velferðarnefnd þarf að kalla eftir því hvort sérstakt mat var lagt á þetta, þá væntanlega af fulltrúum innanríkisráðuneytisins, eða hvort svo var ekki. Það þarf að kalla eftir því við vinnslu málsins í nefndinni. Í máli eins og þessu snúa efnisatriði þess að tiltölulega afmörkuðu atriði, en það sem gleymist oft í þessum sal er að líta til afleiddra áhrifa lagasetningar. Ef sú kenning heldur að breyting eins og þessi, að veita öllum einstaklingum með vernd sömu réttindi og kvótaflóttafólki, hafi engin áhrif til þess að auka hvatann til umsókna um vernd á Íslandi þá verð ég að viðurkenna að það kæmi mér mjög á óvart, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Einhverra hluta vegna er staðan sú að hælisumsóknir eru margfaldar í fjölda hér miðað við þau lönd sem okkur standa næst, fjórfalt til sexfalt hlutfall virðist vera algengt gagnvart samanburði við Norðurlöndin. Eitthvað er það sem orsakar þetta. Það hefur verið rætt hér og því var einmitt haldið fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar 25. janúar, minnir mig að hafi verið, þar sem fulltrúar Útlendingastofnunar komu til skrafs og ráðagerða, að meginástæða þessa fjölda umsókna til Íslands væri hinn langi málsmeðferðartími. Ég held að við gerðum betur í að leita leiða til að stytta hann. Í umræðu undir andsvari hv. þm. Birgis Þórarinssonar hér á undan var komið inn á þetta. Ég held að við verðum að fara í heildstæðari skoðun á þessum málum. Mörgum þykir óþægilegt að tala um skilvirkni og flæði í þeim efnum en það gæti orðið til mikils gagns þannig að við gætum gert vel og stutt við aðlögun þeirra sem koma hingað til lands en reynum ekki að færast um of í fang og gera allt fyrir alla. Þetta er ekki meint með hranalegum hætti þó að þetta sé orðað svona, en það eru takmarkaðir fjármunir sem við höfum úr að spila og ég held að það skipti máli að reyna að nýta þá sem allra best til þess að þeir sem hingað koma eigi sem auðveldast með að aðlagast íslensku samfélagi. Í umræðu um þetta mál á síðasta þingi spannst einhver furðuumræða um að þetta mál snerist fyrst og fremst um að kenna þeim sem hingað koma íslensku. Það trúir því væntanlega ekki nokkur maður upp á þingmenn Miðflokksins að við leggumst gegn því að útlendingar læri íslensku. Það dettur held ég engum í hug.

En það er auðvitað ekki það sem er gagnrýnivert í þessu máli heldur algjör skortur á því að horfa á afleiddu áhrifin. Þegar við horfum 6. lið greinargerðar frumvarpsins, þar sem fjallað er um mat á áhrifum þá segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að ný verkefni Fjölmenningarseturs kalli á þrjú viðbótarstöðugildi auk starfstengds kostnaðar sem nemur árlega um 40,8 millj. kr. ásamt einskiptiskostnaði vegna búnaðarkaupa að fjárhæð 1 millj. kr.“ — sem sagt rúmar 40 milljónir á ári.

Kostnaðurinn við þetta mál, ef málið hefur þau áhrif sem ég get sagt fyrir mig að ég hef áhyggjur af að það hafi, liggur ekki í akkúrat þessum hluta. Hann liggur væntanlega í þeim samningum sem verða gerðir frá því að málið var lagt fram í fyrra, þá voru þrjú sveitarfélög með samstarfssamning um móttöku einstaklinga með vernd á grundvelli þessara reglna, nú eru þau orðin fimm. Eflaust er það þarna og mögulega víðar í kerfinu sem kostnaðurinn mun liggja. Það sem ég gagnrýni er að þessi mynd sé ekki teiknuð upp heildstætt fyrir okkur þingmenn. Það hefur oft verið kallað í góðlátlegu gríni að það sé verið að beita salamí-aðferðinni við að tosa Ísland inn í Evrópusambandið og undir regluverk þess og þetta er að einhverju marki af sama meiði. Hér fáum við lítið púsl í heildarspilið og það er horft mjög þröngt á það í texta þessa frumvarps en raunveruleikinn er sá að verið er að veita öllum þeim einstaklingum sem hljóta vernd hér á landi sömu réttindi og kvótaflóttamönnum.

Ég prentaði út, og ætla að sjá hvort ég finn það í fljótu bragði, frá því í umræðunni í fyrra en þá kom fram í ræðu, með leyfi forseta:

„Flóttafólk á rétt á sérstakri aðstoð að lágmarki í eitt ár frá komu þess til landsins. Aðstoð sú sem flóttafólkið á rétt á, sbr. þó önnur ákvæði þessa kafla, er:

a. Fjárhagsaðstoð.

b. Félagsleg ráðgjöf.

c. Húsnæði, ásamt nauðsynlegu innbúi og síma.

d. Menntun, einkum íslenskukennsla, móðurmálskennsla og samfélagsfræðsla.

e. Leikskólakennsla.

f. Tómstundastarf.

g. Heilbrigðisþjónusta og tannlækningar.

h. Þjónusta túlka.

i. Aðstoð við atvinnuleit.

j. Önnur nauðsynleg aðstoð.“

Síðan fylgdi með: „… en þetta fjallar um svokallað kvótaflóttafólk.“

Það sem eðlilegt er að við spyrjum okkur að hér er: Hvað áhrif hefur það að þessi réttindi séu yfirfærð á mun stærri hóp en notið hefur þeirra hingað til?

Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði áðan að í fyrra hafi komið 871 einstaklingur til landsins. Ég hef ekki skoðað þessa tölu en ég gef mér að hv. þingmaður sé með hana rétta, 871 einstaklingur. Ef við gefum okkur að sá hópur félli undir þetta regluverk til samræmis við það sem kom fram í umræðunni áðan þá er það auðvitað margfalt umfang þess hóps sem er að koma hingað á grundvelli samstarfs um kvótaflóttamenn. Ég bið bara um að þessi mynd, eins og ég segi, sé teiknuð upp fyrir okkur heildstætt af því að þetta litla púsl sem í þessu frumvarpi felst sýnir okkur enga heildarmynd. Ef þingmenn telja að mál sem þetta hafi engin afleidd áhrif þá verð ég að segja að það er afskaplega ólíklegt að það sé raunin. Það kom fram á þeim fundi sem ég nefndi áðan, 25. janúar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, að það kom ýmsum á óvart hversu lítið umsóknum um vernd hafði fækkað í gegnum þetta Covid-tímabil sem við höfum upplifað núna í rétt tvö ár. Ef ég skildi framsetninguna þar hafði umsóknum á Íslandi fækkað mun minna en hjá þjóðum sem við vorum að bera okkur saman við og þá sérstaklega Skandinavíuþjóðunum. Nú er ég að setja fram kenningu, ég hef ekki rannsakað þetta að neinu marki. En það kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra að frá 1. mars 2021 hafi öllum þeim sem hingað komu raunverulega verið stýrt inn í þetta fyrirkomulag og ég held að hæstv. ráðherra hafi nefnt dagsetninguna 1. mars 2020, að þeim sem hafi komið hingað eftir þann tíma hafi öllum verið boðin þátttaka. Þannig að raunverulega sé búið að innleiða þessa breytingu án þessarar lagasetningar. Þá hljótum við að spyrja okkur: Bíddu, til hvers er þá haldið áfram með þetta? Hér er sagt að það sé til að tryggja tiltölulega tæknilegt atriði sem snýr að eftirfarandi, eins og segir í 6. lið greinargerðar, með leyfi forseta:

„Í ljósi mikillar fjölgunar einstaklinga með vernd á síðustu árum er mikilvægt að ríki og sveitarfélög tryggi fólki samfellda og jafna þjónustu. Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja jafna þjónustu óháð því hvernig einstaklingar með vernd komu til landsins. […] Frumvarpið felur í sér þá meginbreytingu að Fjölmenningarsetri er ætlað víðtækara hlutverk með tilkomu samræmdrar móttöku einstaklinga með vernd og því mikilvægt að efla stofnunina þannig að hún geti tekist á við þetta verkefni.“

Fjölmenningarsetrið hefur verið að vinna frábært starf og ég held að enginn sé að draga úr því að þar verði því mikilvæga starfi sinnt áfram. En það hvernig tilefni og nauðsyn þessa máls er soðið niður í næstum því ekki neitt í þessari lýsingu sem hér er birt tel ég líklegt að raungerist með allt öðrum hætti þegar áhrif þessa frumvarps eru komin fram. Ég bara velti því upp hvort þessi litla fækkun — miklu minni fækkun en nágrannaþjóðirnar sáu, miklu minni — á umsóknum í gegnum þetta Covid-tímabil geti hugsanlega verið vegna þess að þau markmið sem eru tilgreind á grundvelli þess að samræma móttöku kvótaflóttamanna og þeirra sem koma eftir öðrum leiðum, hvort sem það er á eigin vegum eða hvernig sem það kann að vera, að þau skilaboð séu þegar farin að orsaka „pull factorinn“, að hvatinn til umsóknar hér á Íslandi sé orðinn meiri en hann var fyrir ekki löngu síðan, því að eitthvað hlýtur að skýra það að umsóknum fækkaði jafn lítið og raunin var í gegnum það Covid-tímabil sem við höfum upplifað í tvö ár þegar meira og minna öll ferðalög lágu niðri á löngum köflum.

Ég hvet hv. velferðarnefnd (Forseti hringir.) til að skoða þetta vandlega og sérstaklega þau atriði sem snúa að því hvernig málum er háttað á Norðurlöndunum, (Forseti hringir.) hvort lagt hafi verið mat á þennan svokallaða „pull factor“ og annað það sem ég nefndi fyrr í ræðunni.