152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir „meðsvarið“. Það kemur fram í ákvæðinu um vinnslu persónuupplýsinga að Fjölmenningarsetri beri að upplýsa viðkomandi einstakling eða forsjáraðila hans um fyrirhugaða vinnslu og miðlun persónuupplýsinga, en ekki neitt um að það beri að fá samþykki. Það má því ætla, þó að það komi ekki fram skýrum orðum, að í rauninni sé ekki gert ráð fyrir að afla þurfi samþykkis. Þá er spurning hvort viðkomandi fái ekki þjónustuna sem er verið að veita þar, hvort þetta verði mat sem verður sett í hendurnar á starfsfólki Fjölmenningarseturs. Það er spurning.

Auðvitað þurfum við að fá ákveðnar upplýsingar, það er alveg ljóst. Við verðum að geta óskað eftir ákveðnum upplýsingum, grunnupplýsingum til að geta veitt þjónustu, t.d. varðandi fjölskyldustærð og fjölskylduhagi; þurfum við að koma börnum í skóla eða undir læknishendur o.s.frv.? Þá er eðlilegt að gera þá kröfu en það þarf eiginlega að búa til einhvers konar varnagla þannig að það þurfi að vera einhver möguleiki til að segja: Þið megið miðla þessum upplýsingum hér en ég vil ekki að þið miðlið þessu þarna, af ótta við afleiðingar. Við þurfum að geta verið sveigjanleg.