152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Ég hvet hv. velferðarnefnd og þá hv. þingmenn sem eru í henni til að skoða athugasemdir Persónuverndar sem voru sendar inn, dagsettar 3. mars 2021 og 22. mars 2021. Þar koma ýmsar athugasemdir fram.

Varðandi það að ef fólk gefur ekki persónuupplýsingar fái það ekki þjónustu: Já, að einhverju leyti en að öðru leyti ekki. Við getum auðvitað verið með, eins og hv. þingmaður veit mjög vel, fólk í mjög ólíkum aðstæðum, með ólíkan bakgrunn, ólíka ástæðu fyrir því að eiga erfitt með traustið, sérstaklega á stjórnvöldum, á mögulega erfitt með að treysta stjórnvöldum fyrir upplýsingum um afkvæmi og hverjir búi á heimilinu. Þar geta verið margar ástæður. En auðvitað vonast maður til að með samræmdri þjónustu eins og verið er að boða hér getum við frekar tekið utan um þennan hóp með fullnægjandi hætti og einmitt byggt brú trausts milli þessa hóps og stjórnkerfisins af því að hluti af þessum hópi hefur aldrei búið við þannig aðstæður að geta treyst nokkrum utanaðkomandi aðila fyrir lífi sínu og velferð.