152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:37]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Hér hefur margt verið rætt, bæði það sem tengist frumvarpinu og ýmislegt fleira. Reyndar er ágætt að tækifæri gefist til að ræða fleira en nákvæmlega það sem hvert og eitt frumvarp hefur að geyma, en ég ætla þó að reyna að halda mig sem mest við frumvarpið og koma inn á ákveðin atriði sem hafa verið rædd hér í dag. Mig langar að byrja á því að koma inn á það sem hv. þingmenn Birgir Þórarinsson og Bergþór Ólason ræddu hér í dag og snýr að þjónustu við fólk sem hefur fengið vernd. Þá er mikilvægt að það komi fram að þjónusta við flóttafólk — við fólk sem hér hefur fengið alþjóðlega vernd, sama með hvaða hætti það hefur fengið verndina — er algerlega veitt óháð þessu frumvarpi. Allir einstaklingar með skráð lögheimili hér á landi eiga rétt á þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og þetta frumvarp breytir því ekki.

Mig langar líka að koma aðeins inn á einn þátt sem nokkrir hv. þingmenn nefndu, m.a. hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, ef ég man rétt, um atvinnuþátttöku. Ég vil fá að taka undir það með hv. þingmanni hversu mikilvæg hún er þegar fólk er komið með vernd hér inn í landið og þá stöðu í samfélaginu. Í því tilraunaverkefni sem hefur verið í gangi núna með sveitarfélögunum, um samræmda móttöku, hefur Vinnumálastofnun fengið aukið hlutverk, hvort sem litið er til samfélagsfræðslu eða aðstoðar við atvinnuþátttöku og aðra virkni. Hún veitir líka náms- og starfsráðgjöf, svo eitthvað sé nefnt. Það má nefna sem dæmi að um helmingur þeirra flóttamanna sem komu til Vinnumálastofnunar í gegnum samræmdu móttökuna hefur nú þegar fengið vinnu, á síðasta ári. Það er mikilvægt.

Skýrslur hafa líka sýnt að langtímaáhrif vegna atvinnuþátttöku útlendinga eru jákvæð efnahagslega. Mig langar að nefna eitt dæmi sem Vinnumálastofnun tók saman fyrir okkur í ráðuneytinu, þ.e. að ef við tökum meðaltal af upphæð fjárhagsaðstoðar fyrir einstakling sem er hér í Reykjavík eða í Kópavogi, fyrir 250 manns sem hingað hafa komið til landsins og fengið vernd með einum eða öðrum hætti, þá erum við að tala um rúmar 600 milljónir á ári sem ekki eru lengur greiddar í fjárhagsaðstoð ef þetta fólk fær starf. Ávinningur vegna skatttekna miðað við ákveðnar forsendur, meðallaun upp á 450.000 kr. á mánuði, eru um 270 millj. kr. á ári sem greiðast þannig til ríkis og sveitarfélaga. Það er um 900 millj. kr. ávinningur á ári. Það má nefnilega alveg setja dæmið upp þannig að það sé ekki bara kostnaður fyrir samfélagið að taka á móti þessu fólki. Þetta fólk er auðlind fyrir samfélagið, hvort sem við erum að horfa á það efnahagslega eða í því að samfélag okkar verður fjölbreyttara og betra.

Hv. 10. þm. Norðaust., Jódís Skúladóttir, nefndi að Norðurlöndin hefðu lengi verið með samræmda móttöku. Hún nefndi Noreg í því sambandi. Hún nefndi að þar sé umfangsmikil þjónusta en á sama tíma sjáist ekki sama aukning og við höfum séð hér á Íslandi þegar kemur að þeim sem sækja hér um vernd. Til að svara hv. þingmönnum Birgi Þórarinssyni og Bergþóri Ólasyni um það hvort líklegt sé að samræmd móttaka, og þetta frumvarp þar með, leiði til þess að fleiri muni sækja um hér þá held ég að það sé í sjálfu sér fátt sem bendi til þess.

Mig langar líka að koma aðeins inn á atriði sem nefnt var af nokkrum þingmönnum og snýr að heildstæðri stefnumótun í málaflokknum. Það er einmitt eitt af verkefnum stjórnarsáttmálans að setja fram heildstæða og skýra stefnu í þessum málefnum sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Vinnu við gerð þessarar heildstæðu stefnu mun ég setja í gang fljótlega.

Síðast en kannski ekki síst, hæstv. forseti, langar mig að koma aftur inn á það um hvað þetta frumvarp snýst. Þetta er í sjálfu sér einfalt frumvarp. Frumvarpið snýst um að Fjölmenningarsetur fái heimildir til að nálgast persónuupplýsingar til að geta aðstoðað fólk við að finna hentugt sveitarfélag. Á sama hátt er sett í lög að hlutverk Fjölmenningarseturs, að veita sveitarfélagi faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna þessarar samræmdu móttöku, er fest í lög. Í þriðja lagi verður það síðan hlutverk Fjölmenningarseturs að bjóða fólki, og þá lögum samkvæmt, að setjast að í móttökusveitarfélagi sem Fjölmenningarsetur telur henta viðkomandi einstaklingi best. Ef viðkomandi einstaklingur vill það ekki og hafnar því að setjast að í viðkomandi sveitarfélagi þá er það skylda Fjölmenningarseturs að veita viðkomandi einstaklingi eða fjölskyldu allar upplýsingar um þá þjónustu sem sveitarfélögunum ber að veita. Það skal skýrt tekið fram, af því að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir spurði hvort fólk hefði val um að taka þátt í samræmdu móttökunni, að það er alveg ljóst að fólk hefur val. Það hefur val um það hvort það þiggur að taka þátt í samræmdri móttöku, það þarf þess ekki. Þau sem vilja ekki taka þátt í samræmdri móttöku fá samt sem áður alla þjónustu í samræmi við lög og einnig þjónustu Vinnumálastofnunar.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig bara að segja þetta: Þetta er mikilvægt púsl í málefnum innflytjenda og nauðsynlegt og gott skref sem við þurfum að stíga til þess að geta tekið betur á móti þeim sem hér hafa fengið vernd og til þess að samræma móttökuna, óháð því með hvaða hætti fólk kemur til landsins. Ég vil að lokum óska nefndinni alls velfarnaðar í umfjöllun sinni um málið.