Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í dag náði mannkynið þeim áfanga að rjúfa 8 milljarða múrinn. Við það tækifæri er hollt að rifja upp að mannfjöldi, eða offjölgun eins og það er oft kallað, er gjarnan notaður sem skálkaskjól til að fela rasisma hjá þeim sem eru að berjast gegn breytingum. Vandinn við að við séum svona mörg er ekki fjöldinn heldur hversu mikið sum okkar nýta af gæðum jarðarinnar, ofnýta. Það sem við eigum að tala um á degi sem þessum er ofnýting auðlinda, of mikil neysla og misskipting, ósanngjörn skipting þeirra gæða sem jörðin gefur okkur. Í þessu birtist skuggahlið græðgi og óhefts kapítalisma og við þekkjum því miður allt of mörg dæmi þess að skuldinni sé skellt á þann hluta heimsins sem fjölgar hvað hraðast sem er jafnframt sá hluti sem er fátækastur og ber minnsta ábyrgð á þeim neikvæðu afleiðingum sem eru af athöfnum mannsins í dag.

Þar langar mig sérstaklega að nefna loftslagsmálin. Nú funda ríki heims í Sharm el-Sheikh til að reyna að ná niðurstöðu í áragamalli deilu um það hvernig eigi að deila byrðum með sanngjörnum hætti á milli ríkari landanna og þeirra sem fátækari eru. Þar er langt í land. Þar leggur hæstv. matvælaráðherra, sem er fulltrúi Íslands, áherslu á að við megum engan tíma missa og þar megi Ísland nota sína skýru rödd. Því miður er sú ekki raunin. Ef við skoðum tölurnar, eins og kom fram í umræðu um markmið Íslands í loftslagsmálum í síðustu viku, þá er eins og enn sé verið að spila eftir einhverri löngu úreltri leikbók í Stjórnarráðinu. Það er í raun ekki búið að uppfæra áætlanir frá 2018, fyrir fjórum árum. Í grein matvælaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, skín í gegn, eins og svo oft þegar stjórnarliðar tala um þessi mál, að þau átta sig ekki á því að of lítill (Forseti hringir.) metnaður íslenskra stjórnvalda er hluti af vandanum, vanda sem þau tala um eins og hann sé einhvern veginn fyrir utan Ísland, sé heimsins alls en ekki Íslands. Þau virðast nefnilega haldin þeirri ranghugmynd að ríkisstjórnin sé að sýna mikinn metnað og ná miklum árangri. Tölurnar sýna annað og það er jafn rangt og það er hættulegt.