Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Orð félags- og vinnumarkaðsráðherra og formanns fjárlaganefndar um jólaeingreiðslu til öryrkja eru um margt áhugaverð. Þau hafa m.a. fengið góða kynningu á þessum hugmyndum sínum í sjónvarpsfréttum RÚV, t.d. síðastliðið föstudagskvöld. Þau segjast bæði tilbúin að endurskoða þá fjárhæð sem áætluð er í jólabónusinn svokallaða. Áhorfendur RÚV fá þar á tilfinninguna að VG sé eitt að berjast fyrir hærri jólabónus. Svo er ekki. Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem er stjórnarfrumvarp og ráðherrar ríkisstjórnarinnar samþykkja á ríkisstjórnarfundi, er gert ráð fyrir að eingreiðslan verði tæpar 28.000 kr. á mann. Í fyrra var greiðslan 53.100 kr. á mann eftir mikla baráttu hér í þinginu. Stefna VG eins og hún birtist í kvöldfréttum RÚV er allt önnur en stefna ríkisstjórnarinnar sem er undir forystu VG. Þegar ráðherrar og þingmenn boða í frumvörpum að greiðslan skuli helminguð en segja svo í ræðustól Alþingis að lagfæring komi til greina fær maður það á tilfinninguna að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að nýta sér jólaeingreiðslu öryrkja sem skiptimynt hér í þinginu til að koma þingmálum sínum í gegn. Ætli stjórnarandstaðan að vera með eitthvert vesen til að koma sínum málum í gegn þá komi það niður á jólaeingreiðslu til öryrkja. Ég ætla að vona að þetta séu óþarfar áhyggjur. Sagan sýnir hins vegar að ríkisstjórnarflokkarnir grípa til hinna ótrúlegustu vinnubragða, þar á meðal að eigna sér mál í fjölmiðlum sem eru komin frá stjórnarandstöðuflokkunum. Það eru þau sannarlega að gera í þessu máli með stuðningi RÚV. Þetta sýnir hve veik málefnastaða ríkisstjórnarflokkanna er í raun og veru. Eitt er víst að Flokkur fólksins mun gera allt til að tryggja öryrkjum og fátækum ellilífeyrisþegum jólaeingreiðslu að fjárhæð 60.000 kr. og hefur formaður flokksins, Inga Sæland, flutt breytingartillögu þess efnis sem liggur hér fyrir þinginu til afgreiðslu.