Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmri viku var landsfundur Sjálfstæðisflokksins haldinn þar sem stefna hans í mikilvægum málaflokkum var mótuð. Af því tilefni langar mig til að deila með þingi og þjóð stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum hinsegin fólks. Þar vill Sjálfstæðisflokkurinn, með leyfi forseta:

„… áfram vera í fararbroddi þeirra sem vilja tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks. Þarft er að stíga áfram skref sem tryggja jöfn réttindi og jafna stöðu þeirra. Stjórnvöld þurfa að móta sér heildstæða stefnu í málefnum hinsegin fólks, í samstarfi við samtök þeirra, þar sem sérstaklega verði skoðað að styrkja stöðu hinsegin fjölskyldna, einkum með tilliti til ættleiðinga, skráningar og sjálfkrafa viðurkenningar samkynja foreldra. Setja þarf skýra stefnu um hinsegin fólk í leit að alþjóðlegri vernd. Ísland er, og á ávallt að vera, í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Fólki á að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild. […] Brýnt er að fræðsla um málefni hinsegin fólks verði efld og veitt á öllum skólastigum og að umfjöllun um þau verði bætt við menntastefnu. Ennfremur að ríki og sveitarfélög tryggi starfsfólki sínu aðgengi að hinseginfræðslu, þá sérstaklega þeim sem koma að því að veita þjónustu til hinsegin fólks.“

Við þetta má bæta að það er sérstakt fagnaðarefni að minn gamli heimabær, Garðabær, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er nú eins og ávallt í meiri hluta í bæjarstjórn, skrifaði nýlega undir samstarfssamning við Samtökin '78 um að stórefla hinseginfræðslu. Garðabær bætist þannig í hóp Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Grindavíkur og Snæfellsbæjar, en Sjálfstæðisflokkurinn er einmitt í meiri hluta í þremur síðasttöldu sveitarfélögunum. Full ástæða er til að hvetja önnur sveitarfélög til að fylgja fordæmi þessara sveitarfélaga. Þannig vinnur Sjálfstæðisflokkurinn að því að tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks.