Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[14:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki miklu við að bæta varðandi það sem ég sagði hér í mínu fyrra svari við hv. þingmann. Ég skil og virði afstöðu þingmannsins og ég skil um hvað verið er að ræða. Það er hins vegar þannig að ríkisendurskoðandi svarar beiðninni jákvætt og afmarkar sína úttekt eins og fyrir liggur í skýrslunni og auðvitað þarf að lesa hana með tilliti til afmörkunarinnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt atriði sem hér er bent á og ég held að það sé mjög mikilvægt líka að við hugsum um það í framhaldinu. Lögum má breyta, hefðum má breyta. Ef það er þannig að meiri hluti hv. þingmanna er sama sinnis og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson og vill breyta þessum vinnubrögðum þá þurfum við að beita okkur fyrir því. En ákvörðunin er ríkisendurskoðanda. Hann er trúnaðarmaður okkar.