Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sú umræða sem á sér stað hér í dag sé einmitt til vitnis um að við viljum tryggja að traust ríki um framhaldið og við viljum að farið sé ofan í saumana á hverju atriði við framkvæmd sölunnar. Það að kalla eftir þessari skýrslu til Alþingis er einmitt til vitnis um það. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að við ætlum að klára umræðu og uppgjör við síðasta söluáfanga áður en við hefjumst handa við að selja meira er líka til vitnis um að við viljum að traust sé til staðar. Svo er það náttúrlega þannig eins og venjulega að hér eru þingmenn inni sem treysta ekki mér eða ríkisstjórninni eða öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni og ég segi bara: Sömuleiðis, sömuleiðis. Ég myndi aldrei treysta viðkomandi þingmönnum til þess að fara með fjárreiður ríkisins eða taka ákvarðanir sem máli skipta. Fólkið sem ætlaði okkur Íslendingum að taka lán hjá Evrópska seðlabankanum og sagði útilokað fyrir Ísland að finna leið út úr fjármálahruninu án þess að gefa eftir fullveldið o.s.frv. Þetta fólk myndi aldrei frá traust frá mér, aldrei nokkurn tíma, til að höndla með svona stórar ákvarðanir.