Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[15:33]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja eftir þessa ræðu. [Hlátur í þingsal.] Það var farið svolítið víða um völlinn og að sjálfsögðu var Evrópusambandið og gjaldmiðillinn dreginn inn í þá umræðu. Mig langar að minna hæstv. ráðherra á að það var nú einu sinni skrifuð ágætisgrein og komið með tilmæli um að það væri kannski hægt að sækja um það að taka upp evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það væri kannski hægt að rifja upp hvaðan sú tillaga kom, úr þegar við erum komin með umræðuna á þessa leið. En það sem ég vildi halda til haga er að svona belgingsleg svör um það að við þurfum að bíða eftir einhverjum frekari svörum áður en hægt er að fara í það að rífa upp traustið — það voru 80% þjóðarinnar sem fannst illa staðið að þessari sölu. Það þýðir auðvitað að 80% þjóðarinnar telja að það sé ekki traust til þess að halda áfram að selja. Mikill meiri hluti þjóðarinnar vildi að því yrði svarað með rannsóknarnefnd Alþingis. Því vil ég fá að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort pólitískur veruleiki málsins sé ekki sá, með andrúmsloftið þannig í samfélaginu, með traustið í lágmarki, (Forseti hringir.) með bakland hinna tveggja stjórnarflokkanna logandi út af því hvernig til tókst í þessu tilviki, að framhald sölu sé tómt mál að tala um næstu misseri nema róttækar breytingar verði gerðar.