Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að halda því fram að daginn sem ríkið fellur frá arðsemiskröfu til fjármálafyrirtækis eins og Íslandsbanka, eða eftir atvikum Landsbanka, þá hrynji virði eignarinnar. Bara eftir því hversu langt menn vilja ganga er hægt að sjá fyrir sér allt virði gufi upp. Ef það er orðið sérstakt markmið að reka fjármálafyrirtæki ekki með arðsemissjónarmið að leiðarljósi þá held ég að það sé alveg augljóst að virði hlutabréfanna í viðkomandi fyrirtæki hverfur. En virði fyrir samfélagið, það kann að vera að hægt sé að finna leiðir til þess að skila virði með slíkum hætti til samfélagsins, kannski ekki þó jafnt til allra, kannski helst til þeirra sem njóta. Ég skal alveg með opnum huga hlusta á það. En það verður aldrei á þeim forsendum að við getum gert hvort tveggja í senn, að viðhalda virði eigna ríkisins og koma á fót samfélagsbanka.

Ég hefði haldið að þeir sem vilja koma á fót samfélagsbanka á Íslandi ættu bara að leggja til að stofnað yrði sérstakt hlutafélag um það og láta aðrar eigur ríkisins halda verðgildi sínu en ekki sjá það gufa upp vegna slíkra hugmynda. Ég er bara að nefna þetta vegna þess að mér finnst skjóta skökku við að þeir hinir sömu og vilja breyta fjármálafyrirtækjum ríkisins í samfélagsbanka hafi mjög miklar áhyggjur af því hvort gengið er 117 kr. eða 118 kr.