Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr ræðu minni fyrir hv. þm. Óla Björn Kárason þar sem ég spurði:

„Má fjármálaráðherra Íslands selja pabba sínum hlut í ríkiseign á betri kjörum en almennt bjóðast?“

Þetta var spurning. Svo held ég að hafi það verið annars staðar í niðurlaginu, alveg í endann á ræðu minni — nú er þetta náttúrlega allt komið í eitthvert rugl. Ég velti því alla vega upp hvort við þyrftum ekki að fá svar við einmitt þessari spurningu sem er ekki svarað í skýrslu Ríkisendurskoðunar. — Einmitt, hérna er þetta:

„Við bíðum enn eftir svörum við því hvort það sé virkilega í lagi að fjármálaráðherra Íslands megi selja pabba sínum hlut í banka á betri kjörum en almennt bjóðast.“

Þannig að bara til þess að fullvissa hv. þingmann um það þá talaði ég hvergi um heilan banka eða nokkuð þvílíkt, svo það liggi alveg fyrir. Síðan þetta með að handvelja þá sem fá að kaupa í bankanum. Það er ekki það sem hefur verið gagnrýnt. Það sem enn leikur vafi á um er hvort ráðherra hafi borið að fara yfir öll tilboðin sem hann skrifar undir og samþykkir fyrir hönd ríkisins og hvert hæfi ráðherrann sé þá þegar hann framkvæmir þessa athöfn fyrir hönd ríkisins. Þetta er bara spurning sem við viljum fá svar við: Eiga hæfisreglur við í þessu tilfelli eða ekki? Ráðherra vill meina ekki. Við viljum meina að svo sé. Ríkisendurskoðun skoðaði það ekki í þessari skýrslu og það er nú það eina sem ég var að benda á.