Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held ég hafi nú svarað spurningu hv. þingmanns: Nei, ég vil ekki að ráðherra velji þá sem fá að kaupa hlut í Íslandsbanka eða neinum öðrum ríkiseignum, bara svona einhvern veginn eftir eigin hentisemi. Til þess eru líka t.d. gerðar þessar reglur um hagsmunaárekstra og hæfi, til þess að fólk sé ekki að velja t.d. fjölskyldumeðlimi til að fá eign ríkisins á betri kjörum en almenningi býðst almennt. En ókei. Okkar ágreiningur liggur í því hvort sú spurning sé hér undir eða ekki. Er það bara í lagi? Er það virkilega þannig? Sú spurning er bara ekki greind af ríkisendurskoðanda. Það sakar enginn ríkisendurskoðanda um að hafa ekki farið að lögum. Ég veit ekki hvaða vitleysa þetta er í fólki hérna. Við erum bara að vitna beint í skýrslu ríkisendurskoðanda og á blaðsíðu 3 segir, með leyfi forseta:

„Það fellur utan hlutverks Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og ber embættinu að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringu laga, enda er öðrum aðilum falið það hlutverk að lögum.“

Á fundi Ríkisendurskoðunar með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vísuðu fulltrúar Ríkisendurskoðunar sérstaklega til þess að m.a. væri verið að virða valdmörk umboðsmanns Alþingis sem hefur einmitt það hlutverk að gæta að hvort ráðherra hafi gætt að sínu hæfi, hvort hann hafi farið eftir stjórnsýslulögum o.s.frv. Þannig að ég veit ekki hver er að dylgja hér en það er ekki ég. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)