Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:05]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir andsvarið. Varaformaður Framsóknarflokksins stendur fyrir sínum umsögnum. Ég man ekki til þess að það hafi verið sérstaklega bókað eða lagt fram að einhver andstaða væri við þessa framkvæmd, þá er ég að tala um tilboðsferlið, á fundi hjá okkur en þetta var rætt fram og til baka. Við fengum upplýsingar og annað en ekki var bókuð nein andstaða við þetta form, enda erum við ekkert endilega að ræða um það núna heldur fyrirkomulag þeirrar leiðar sem almennt var skrifað undir. Ég veit að okkar þingmenn, sem sátu í þeim nefndum, gerðu ekki athugasemdir, hvorki í efnahags- og viðskiptanefnd né í fjárlaganefnd.