Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:07]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá verður varaformaður flokksins að svara fyrir sín orð. (Gripið fram í.) Nei, hún er ekki hér og ég er ekki hér til svara fyrir hana. En auðvitað var þetta rætt í þingflokknum eins og hvað annað og ég held að það hafi verið almenn sátt um að fara þessa leið. En auðvitað erum við öll jafn sjokkeruð þegar kemur í ljós að ferlið er gallað og framkvæmdin gölluð, réttara sagt, en við erum ekki enn þá á því að þessi leið sé ómöguleg. En hvað fór fram í ráðherranefndinni? Það var hvorki bókað eða okkur birt. Ég efast ekkert um þetta enda er hæstv. ráðherra mjög vel inni í efnahagsmálum og ég hugsa að hún sé með þeim betri í þingflokknum í þeim þannig að hennar skoðun er virt innan flokksins og rædd. En þetta var niðurstaðan.