Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér datt í hug að spyrja, vegna þess að um það var rætt í andsvörum áðan að varaformaður Framsóknarflokksins væri mjög áberandi í fjölmiðlum í dag að bregðast við efni skýrslunnar, hvort forseti viti til þess að hún muni bæta sér á mælendaskrá í þessari umræðu? Bæði vakti athygli hér á vorþingi þegar hæstv. ráðherra, sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál, lýsti því yfir að hún hefði á þeim vettvangi lýst efasemdum um þá leið sem var valin við útboðið á hlut í Íslandsbanka og auk þess er hún ráðherra bankamála. Því skiptir tiltrú almennings á bankakerfinu ekki litlu máli fyrir hennar málaflokk. Auðvitað er jákvætt að hæstv. ráðherra sé að taka þátt í almennri samfélagsumræðu með því að veita viðtöl um efni skýrslunnar, eins og ég hef séð í Vísi og Fréttablaðinu í dag, en viðtöl við fjölmiðla kom ekki af stað umræðu hér á þessum vettvangi. (Forseti hringir.) Við erum að ræða þessa skýrslu í málstofu lýðræðisins á Alþingi og ég reikna með að hæstv. ráðherra eigi bara eftir að skrá sig á mælendaskrá því annað væri fullkomlega ólíðandi.