Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:24]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Auðvitað skiptir mestu máli við mat á því hvernig til tókst að rýna aðdraganda sölunnar, rýna þær ákvarðanir sem voru teknar um hvernig leikfléttan um söluna var teiknuð upp. Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir nefndi að varaformaður Framsóknarflokksins hefði ekkert bókað um sína afstöðu í þingflokknum. Það rímar við ummæli forsætisráðherra í vor sem talaði mikið um það að ráðherra bankamála hefði ekkert bókað um afstöðu sína í ráðherranefndinni þótt ýmsar umræður hefðu þar átt sér stað. Allir sem eitthvað eru læsir á stjórnmál átta sig á því að hefði bankamálaráðherra bókað gegn forsætisráðherra og fjármálaráðherra inni í nefndinni þá hefði það sennilega jafngilt því að slíta stjórnarsamstarfi. Auðvitað skiptir máli þegar nokkuð afdráttarlaus skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir um hver staða málsins var, (Forseti hringir.) hvort í upphafi hafi verið lagt af stað í óeiningu innan ríkisstjórnarinnar, að forsætisráðherra hafi farið leið sem fjármálaráðherra lagði upp með en bankamálaráðherra mótmælti.