Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn, þá varpaði hæstv. ráðherra því upp fyrr í þessari umræðu hvort ríkisendurskoðandi hefði ekki örugglega unnið það verk sem óskað var eftir og hann féllst síðar á að vinna. Mér finnst eðlilegt að því sé haldið til haga í umræðunni að ríkisendurskoðandi ræður því nákvæmlega sjálfur hvað það er sem hann skoðar á grundvelli laga um ríkisendurskoðanda. Það er ekki fjármálaráðherra að segja til um það í einhverju bréfi til ríkisendurskoðanda hvað hann eigi að skoða og hvað ekki. Það sem ríkisendurskoðandi rýndi sérstaklega í þessari skýrslu er mjög skýrt tekið fram. Á fyrstu blaðsíðu skýrslunnar eru þær spurningar sem lagðar voru til grundvallar þessari úttekt.