Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Í vor gekk gamalkunnugur frasi í endurnýjun lífdaga, í pólitísku samhengi: Það var orðið mjög nauðsynlegt að velta við öllum steinum. Þetta var sagt ítrekað og oft, orðrétt og efnislega. Þarna var verið að svara kröfu stjórnarandstöðunnar um að setja á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis um söluna á Íslandsbanka. Samhengið var ofur eðlilega þetta: Ef skýrsla Ríkisendurskoðunar svarar ekki öllum spurningum um útboðið þá er hægt að velta við öllum steinum í skýrslu rannsóknarnefndar. Nú höfum við skýrslu Ríkisendurskoðunar í höndunum og þar kemur mjög skýrt fram að hún svarar ekki öllum þeim spurningum og öllum þeim gagnrýnisatriðum sem sett voru fram í vor og meira að segja langt frá því. Ríkisendurskoðun svarar ekki spurningum um hvort rétta fyrirkomulagið hafi verið valið, hvort tímasetningin hafi verið rétt, hver sé hin pólitíska ábyrgð, hvort söluferlið hjá söluráðgjöfum standist skoðun, hverjir séu hæfir fjárfestar, hvernig þeir voru valdir og svo mætti áfram telja. Sumt af þessu er til rannsóknar annars staðar en annað ekki. Með öðrum orðum, það er mörgum spurningum ósvarað, m.a. þeim sem snúa að siðferðilegri og pólitískri ábyrgð. Það er nánast sagt berum orðum í skýrslunni að gamalkunnugi frasinn, sem ég vísaði til í upphafi, að velta við öllum steinum, eigi ekki við þegar þessi skýrsla er lesin. Það er tekið fram í skýrslunni. Úr því að Ríkisendurskoðun telur sjálf að hún velti ekki við öllum steinum, hvar eru þá allir stjórnarþingmennirnir og ráðherrarnir í dag sem ákafast töluðu um það í vor að velta við öllum steinum? Þeir eru á harðahlaupum undan eigin ábyrgð og rétt staldra við af og til þegar þeir mæta opnum míkrófónum fjölmiðlamanna til þess eins að koma allri og óskiptri ábyrgð yfir á Bankasýsluna. Pólitíska ábyrgðin er engin. Bankasýslunni skal hent undir rútuna. Nú er ekki tímabært að velta við öllum steinum, jafnvel þótt ríkisendurskoðandi sjálfur segi að hann hafi einmitt ekki gert það, velt við öllum steinum.

Það er dapurlegt að fylgjast með þessu. Það er dapurlegt að það sé ekkert að marka orð og hástemmdar yfirlýsingar sem voru gefnar hérna fyrir fáeinum mánuðum. Eina leiðin til að svara öllum þessum spurningum er nefnilega að stofna rannsóknarnefnd Alþingis og það vill þingmeirihlutinn ofur einfaldlega ekki gera. Það er verið að leika hér alls konar tafaleiki til þess eins að svara því til þannig á endanum að sú nefnd verði ekki stofnuð. Samt er þetta eini aðilinn sem gæti í fyrsta lagi farið í gegnum allt það sem ég rakti hérna að ofan og í öðru lagi skapað það traust sem getur verið grundvöllur fyrir frekari sölu Íslandsbanka og eftir atvikum í Landsbankanum. Stóri pólitíski sannleikurinn sem þessi sala leiðir í ljós er nefnilega sá að þessari ríkisstjórn, og þá ekki síst Sjálfstæðisflokknum, hefur algerlega mistekist að búa til tugmilljarða verðmæti fyrir ríkissjóð úr þessari eign sem Íslandsbanki er. Það þýðir ekkert að vísa til þess að fyrri áfangi sölunnar hafi gengið vel þegar sá síðari kolfellur og gerir það að verkum að ferlið fram undan er rúið öllu trausti. Þetta er hinn bitri augljósi pólitíski sannleikur. Tap ríkisins vegna þessa til skamms tíma er talið í tugum milljarða.

Skýrslan er vönduð og hún er góð og við eigum að lesa hana vel og mér finnst vera mikill þungi í henni. Það eru mörg atriði þarna sem við þurfum að ræða vel og vandlega. Önnur þurfum við einfaldlega ekki að ræða vegna þess að niðurstaða liggur fyrir. Þetta er áfellisdómur yfir bæði undirbúningi sölunnar og allri framkvæmd og það var margt sem fór úrskeiðis samkvæmt skýrslunni. Upplýsingagjöf til þingsins var ábótavant og dró ekki upp rétta mynd af fyrirhuguðu söluferli. Þar er ábyrgðin fjármálaráðuneytisins og Bankasýslunnar. Og hvað þýðir þetta? Þetta er svona lítil setning í skýrslunni sem lætur í raun og veru ekkert mikið yfir sér. Hvert er hlutverk Alþingis bæði almennt séð gagnvart framkvæmdarvaldinu og hvert er hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar og fjármálanefndar almennt í þessu ferli sem við erum að ræða hér? Það er auðvitað ákveðið eftirlitshlutverk. Það er þannig, samkvæmt ríkisendurskoðanda á fundinum í gær með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að þetta þýðir í raun að þingnefndirnar voru rændir þeim rétti sínum og lögbundna hlutverki að geta spurt gagnrýninna og upplýsandi spurninga og veitt álit á réttum forsendum lögum samkvæmt. Með því að veita villandi upplýsingar um ferlið þá er verið að ræna þingnefndirnar þessum rétti sínum. Ríkisendurskoðun nefnir það vissulega ekki í skýrslu sinni að þetta sé lögbrot en ég held að það sé mjög vert að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd velti þeirri spurningu ákaflega vel upp í sinni vinnu.

Ég hef tekið eftir því að það er mörgum sem finnst þetta tiltölulega léttvægt atriði. Það er glettilega oft sama fólkið og finnst óþarfi að stofna rannsóknarnefnd Alþingis. Þetta er sem sagt áhugafólk um að Alþingi sé ekki með virkt eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þannig er það bara. Þetta er auðvitað mjög miður og þetta er gríðarlega mikilvægt atriði í skýrslunni því þetta lögbundna hlutverk á svo sannarlega ekki að vera léttvægt.

Það voru fleiri atriði sem fóru aflaga. Jafnræðis var ekki gætt. Það voru ekki gerðar tilhlýðilegar kröfur til þeirra sem sáu um söluna. Það er dregið fram í skýrslunni að verðið hefði mögulega getað verið hærra. Þá segja einhverjir að það skipti ekki miklu máli því að það séu ekki margir milljarðar í heildarsamhenginu. En þetta er samt sem áður allt dregið fram í skýrslunni. Auðvitað er það mikill áfellisdómur yfir allri framkvæmdinni og að sjálfsögðu undirbúningnum líka. Undan því komast menn auðvitað ekki neitt. Það er ekki sanngjarnt af hæstv. fjármálaráðherra að setja það hér upp að það sé bara verið að taka tillit til einhverra annarra atriða sem þá núlli þetta út. Þannig er ekki hægt að lesa þessa skýrslu og þessa niðurstöðu, yfir það var mjög vel farið á fundinum í gær með Ríkisendurskoðun. Svo er hér tekið fram, og ætla ég bara að vitna beint í skýrsluna:

„Þrátt fyrir reynslu og þekkingu starfsmanna og stjórnar Bankasýslunnar á sviði umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum bjó stofnunin ekki yfir reynslu af tilboðsfyrirkomulagi í aðdraganda sölunnar. […]

Ekki voru gerðar tilhlýðilegar kröfur til umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila og vegna annmarka á framkvæmdinni var eftirspurn vanmetin við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð. Þá var hvorki tekið nægjanlegt tillit til mögulegrar orðsporsáhættu né gætt eins vel og mögulegt var að meginreglum um gagnsæi og hlutlægni. Eins og tilboðsfyrirkomulagið var afmarkað og útfært gat það ekki tryggt fullt jafnræði þeirra fjárfesta sem því var beint að.“

Hvernig geta menn komist að þeirri niðurstöðu, þegar allt þetta er lesið, þegar allt þetta er lagt saman í eina jöfnu, að það sé bara verið að gera einhverjar minni háttar athugasemdir við ferlið? Hvernig getur það verið niðurstaða þeirra sem lesa skýrsluna með einhverja sanngirni að leiðarljósi? Þeir sem svona tala eru ofur einfaldlega á flótta frá sannleikanum. Þannig er það og þannig eigum við að umgangast vinnuna hér fram undan í þinginu.

Það stendur auðvitað margt fleira í þessari skýrslu en að mínu mati þá finnst mér mjög skýrt að draga fram alla þá pólitísku ábyrgð sem við hljótum að láta liggja til grundvallar í þessu. Skýrsla Ríkisendurskoðunar tekur ekki á því, það liggur í hlutarins eðli. Fjármálaeftirlit Seðlabankans tekur ekki á því, það liggur líka í hlutarins eðli. Það er enginn að velta því fyrir sér í ferlinu öllu sem er auðvitað ástæðan fyrir því að menn vilja ekki að hér sé stofnuð rannsóknarnefnd Alþingis. Þegar við skoðum öll þessi atriði samandregin, þegar við höfum það í huga að viðbragðið við gagnrýninni sem fram kom á ferlið var að leggja niður heila stofnun og strengja þess heit hér í ræðustóli og annars staðar að þetta tilboðsfyrirkomulag yrði aldrei aftur notað við sölu á hlut ríkisins í bönkum, þegar allt þetta er virt þá kemur hæstv. fjármálaráðherra hér upp í pontu og lýsir því yfir að það að kalla eftir einhvers konar ábyrgð sé eins og að kalla eftir ábyrgð samgönguráðherra á því að einhver aki yfir á rauðu ljósi. Hugsið ykkur samjöfnuðinn. Það er búið að vera margra mánaða vinna í gangi hjá heilli stofnun, virtustu eftirlitsstofnun Alþingis. Við erum með skýrslu sem tætir í sig bæði undirbúninginn og framkvæmdina sjálfa og því er líkt við umferðarlagabrot. Það er út af fyrir sig alvarlegt þegar menn aka yfir á rauðu ljósi. Það hefur hins vegar aldrei orðið andlag margra mánaða rannsóknar. Það hefur aldrei orðið til þess að samfélagið hafi nánast stöðvast vegna þess að 80% þjóðarinnar eru ósátt við það hvernig 50 milljarðar voru teknir og þeir seldir með fyrirkomulagi sem stenst enga skoðun. Það er kjarni málsins. Það er nákvæmlega þetta sem við verðum að hafa í huga.

Það er mikið búið að tala um hið lagalega samhengi, minna hins vegar um pólitísku ábyrgðina. Förum aðeins yfir lagalega samhengið. Ríkisendurskoðandi hefur áður farið í gegnum bankasölu. Ríkisendurskoðandi fór tvisvar í gegnum það hvernig einkavæðingu Búnaðarbankans var háttað á sínum tíma. Í bæði skiptin gaf ríkisendurskoðandi heilbrigðisvottorð á þá framkvæmd. Hvað gerðist síðan næst? Það var stofnuð rannsóknarnefnd. Að hverju komst rannsóknarnefndin? Hún komst að því sem ríkisendurskoðandi hafði ekki komist að, sem var að á bak við kaupin voru leppar og það var svoleiðis farið á svig við lög og góða viðskiptahætti, þjóðin blekkt, þingið líka og jafnvel ríkisstjórnin. Þetta gat Ríkisendurskoðun ekki dregið fram ofur einfaldlega vegna þess að hlutverk hennar samkvæmt lögum er afmarkað við tiltekna þætti. Það kemur fram hjá ríkisendurskoðanda í viðtölum að það séu aðrir aðilar til þess bærir að fjalla betur um álitaefni eins og lögbrot. Það kemur bara skýrt fram hjá honum. Ég ætla ekki að fella neina dóma um það hvort lög hafi verið brotin en það er a.m.k. í einu tilfelli sem ríkisendurskoðandi hefur bent Fjármálaeftirlitinu á að skoða ákveðna þætti mjög vandlega. Þess utan er alltaf undirliggjandi að rannsóknarnefnd hefur tæki og tól sem Ríkisendurskoðun hefur ekki. Ríkisendurskoðun vinnur sína vinnu vel og af miklum heiðarleika og ég ber fyllsta traust til stofnunarinnar. En við verðum auðvitað að skoða lögbundið hlutverk hennar, hafa forsöguna og söguna alla í samhengi, sérstaklega þegar við erum að tala um þegar verið er að selja banka hér á Íslandi. Þetta eru stóru atriðin í þessu öllu.

Traust og orðspor eru algjör lykilatriði þegar við erum að fara yfir þessi mál. Þess vegna vekur það verulega athygli þegar Ríkisendurskoðun talar um að ekki hafi verið gætt nægjanlega mikið að orðsporsáhættu. Orðsporsáhætta. Hugsið um þetta orð í samhengi við það þegar verið er að selja eigur almennings í fjármálafyrirtæki. Setjið það í samhengi við hrunið. Setjið það í samhengi við það sem stendur fyrir dyrum, þ.e. að selja áfram hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Orðsporsáhætta er algert lykilhugtak í þessu og að því var ekki gætt í þessari sölu. Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar. Það er ekki síður alvarlegt, rétt eins og að gefa þinginu villandi upplýsingar sem torveldaði að þingnefndir gætu sinnt sínu hlutverki eins vel og æskilegt væri. Svo er auðvitað ekki bæði sleppt og haldið. Þegar hæstv. fjármálaráðherra, forsætisráðherra og fleiri ráðherrar koma hér upp í ræðustól eftir fyrri söluna og slá sér á brjóst og tala um að þetta hafi verið gríðarlega vel heppnuð framkvæmd, ríkisstjórnin hafi halað inn tugi milljarða með frábærum árangri og frábæru verklagi og allt hafi verið eins og blómstrið eina, þá geta menn ekki staðið hér þegar búið er að tæta seinni söluna í sig með skýrslu Ríkisendurskoðunar og sagt: Við berum enga ábyrgð. Við skulum taka hrósi þegar vel gengur. Við skulum bera ábyrgð þegar vel gengur en þegar illa gengur — nei, Bankasýslan. Þá er það Bankasýslan, henni skal fleygt undir rútuna. Mér finnst þetta ódýr og ómerkileg pólitík. Ég verð að segja það. Mér finnst ódýrt og ómerkilegt að geta ekki sem valdhafi í þessu landi staðið frammi fyrir orðnum hlut og axlað pólitíska ábyrgð. Að mínu mati er það að axla pólitíska ábyrgð í þessu máli í sjálfu sér ekkert rosalega veigamikið verkefni. Það er að stofna nefnd, stofna rannsóknarnefnd. Það hefur aldrei vafist fyrir þessari ríkisstjórn að stofna nefndir og starfshópa. Það hefur verið einfaldasta mál í heimi. En þegar kemur að svona veigamiklum hlut þar sem er verið að selja 50 milljarða af almannafé og a.m.k. 70 milljarðar eru undir í framtíðinni, þá er ekki hægt að stofna nefndir. Þá þarf einhvern veginn að drepa málum á dreif og leika einhverja tafaleiki fram hjá hinu óhjákvæmilega; að traust verður ekki endurvakið nema með því að aðili með almennilegar rannsóknarheimildir og almennilegt forræði fari yfir þetta, t.d. þau makalausu samskipti sem áttu sér stað í ráðherranefndinni í aðdraganda sölunnar sem ríkisendurskoðandi gerði ekki. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig það mál allt saman var. Í það er t.d. vísað af ríkisendurskoðanda — þetta spurði ég um á fundinum í gær — að það hafi verið ákveðið að elta það ekki vegna þess að það eru ekki neinar bókanir til. Þarna sjást auðvitað bara takmörkin á því hversu langt ríkisendurskoðandi getur gengið. Þegar er verið að rannsaka svona mál þá þarf að tala við hlutaðeigandi og hafa almennilegar valdheimildir til að ganga í það. Skiptir máli hvað ráðherrar sögðu í aðdraganda sölunnar? Já. Það skiptir engu máli hvort hæstv. viðskiptaráðherra er bankamálaráðherra eða bara viðskiptaráðherra en það að hann lýsi því yfir eftir söluna að varað hafi verið við þessu og sem meira er, (Forseti hringir.) að hann hafi séð það fyrir að þetta myndi enda með klúðri og útkoman yrði sú sem hún yrði, segir eiginlega alla söguna um það að Ríkisendurskoðun komist að þeirri niðurstöðu að bæði undirbúningurinn og framkvæmdin á þessari sölu stenst enga skoðun.