Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:05]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er látið að því liggja að það sé bara einn maður í landinu sem geti selt banka og það skipti engu máli hvernig það sé gert svo lengi sem fáist einhverjir peningar fyrir það, eins og að yfirlýst markmið geti ekki verið að auka traust og trúverðugleika í fjármálakerfinu og fara að lögum. Það er auðvitað afvegaleiðandi í umræðunni að halda því fram að bara fyrst það fengust einhverjir peningar fyrir þessa bankasölu þá skipti ekki máli hvernig að henni var staðið. Hvaða skilaboð er verið að senda? Varðandi erlendu aðilana, þessa stóru stöndugu langtímafjárfesta sem hæstv. fjármálaráðherra samþykkti að ákvörðuðu um verð fyrir þjóðareign, og reyndist síðan vera sjóðir sem hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að vita eins og öll þjóðin að voru sjóðir sem höfðu þegar selt hratt sinn hlut í fyrsta útboðinu, þá lá fyrir að þetta voru ekki stöndugir langtímafjárfestar. Það skiptir máli hver kemur að fjárfestingunni. Þessir aðilar eru ekki enn þá í eignarhaldi bankans og þessi dreifða erlenda eignaraðild er ekki enn þá til staðar.