Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Dreift eignarhald er víst enn þá til staðar. Það er rangt sem hv. þingmaður heldur hér fram. Það er ágætt að rifja það upp sem Bankasýslan þurfti að leiðrétta úr umræðunni í vor, sem virðist ekki hafa komist til skila til hv. þingmanns, sem er að fjöldi hluthafa jókst eftir útboðið og meiri hluti fjárfesta hélt í hlut sinn eða jók við hann. Skoðið bara tíu stærstu hluthafa bankans, það eru erlendir aðilar og stórir sjóðir, nákvæmlega eins og við hefðum viljað teikna upp fyrir fram. Samfylkingin skilaði eiginlega bara auðu hér í meðferð þingsins á þessu máli. Það sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson skilaði inn sem umsögn snerist bara allt um: Ekki núna, ekki þessi ráðherra, seinna, greina betur, skoða stefnumörkun, en ekkert af því sem var lagt upp með í greinargerð ráðherrans fékk umfjöllun hjá hv. þingmanni. Hið sama má eiginlega segja um umsögn úr efnahags- og viðskiptanefnd. Þannig að þegar hér er komið fram með gagnrýni þá vil ég bara minna á að Samfylkingin skilaði eiginlega auðu í vor. (Forseti hringir.) Forgangsmarkmiðið um hátt verð var allan tímann gilt. Málið er bara að það var ekki eina markmiðið sem við vorum að reyna að ná.