Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:13]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem Samfylkingin kallaði eftir í sínu nefndaráliti var ítarlegri greining áður en ráðist væri í þessa sölu, sem er nákvæmlega það sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við í sinni skýrslu. Síðan þurfum við líka að hafa í huga að auðvitað skiptir eðli fjárfestanna máli. Samfylkingin hefur viljað fá langtímafjárfesta inn í eignarhald bankanna. Það eru ekki erlendu fjárfestarnir sem komu inn í þetta útboð, það liggur fyrir. Þessir aðilar seldu sig strax út. Við fengum skammtímafjárfesta inn. Það að stæra sig af því að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra hafi tekist að laða hér að aðila sem í annað skiptið í röð gerðu lítið úr þessu ferli með því að taka snúning og selja sig strax út úr ferlinu getur ekki verið til eftirbreytni. Þetta er frekar til marks um áhugaleysi erlendra fjárfesta á að koma hér inn, alvöru erlendra fjárfesta. Það skiptir máli hvers eðlis þeir aðilar eru, ekki bara ríkisfangið. Við hljótum að geta sammælst um það.