Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég er einmitt í töluverðum vandræðum með að átta mig á hvert yfirlýst markmið með sölunni var vegna þess að mér finnst markmiðið breytast bara eftir tíma, eftir því hvert tilefnið er, eftir því hver spyr, eftir því nákvæmlega hvað er verið að gera hverju sinni. Ég skildi það einmitt þannig að það ætti að ná í stóra og stönduga fjárfesta og þess vegna væri farin þessi lokaða leið en ekki í almennt útboð með áherslu á hæsta verð eins og lögin gera ráð fyrir. Fjölbreytt eignarhald var samt tiltekið þrátt fyrir að farin væri leið sem myndi í raun fela í sér minna fjölbreytt eignarhald heldur en opið útboð. Hæsta verð var náttúrlega nefnt til sögunnar og þátttaka erlendra fjárfesta og þátttaka erlendra fjárfesta þótti mikilvæg vegna þess að það myndi hafa góð áhrif á sölu á eftirstandandi hlut ríkisins. Þá þarf maður langtímafjárfesta, þá þarf maður stóra kjölfestufjárfesta. Samt var á reiki hvernig þeim markmiðum átti að vera náð og þá var allt í einu allt í lagi að sleppa fjölbreyttu eignarhaldi vegna þess að það var hvort eð er orðið fjölbreytt og þess vegna mátti fara í lokað útboð, er það ekki? Ég er bara að spá í hvort hv. þingmaður ná einhverjum betri þræði í þessu en ég.