Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:22]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langaði aðeins að beina samtalinu að öðru. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er áhugavert að sjá hreyfingarnar á viðskiptum annars vegar með Arion banka og hins vegar Íslandsbanka dagana fyrir útboðið. Það eru nánast engin viðskipti með bréfin í Íslandsbanka dagana á undan. Þarna voru auðvitað alls konar aðilar úti á markaði komnir með upplýsingar um að það stæði til að selja, mögulegan með afslætti, nokkrum dögum síðar. Við höfum svolítið verið að tala um út frá skýrslunni hvort hæsta mögulega verð hafi fengist og hvort þau atriði öllsömul hafi verið gerð með réttum hætti. Þá langaði mig kannski aðeins að varpa því til hv. þingmanns: Þegar svo háttar til að það eru ekki virk viðskipti, að því er virðist, mögulega vegna þess að eitthvað hafi lekið út þarna í aðdragandanum, er það ekki hlutur sem gæti líka haft áhrif á það verð sem á endanum kom upp úr hattinum, 117, þegar gengið var ákveðið? Sú verðmyndun á undan, hefur hún ekki líka áhrif á þetta þegar við erum að meta áhrifin á ríkissjóð?