Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:16]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og mér finnst þetta mjög góð spurning og ég held að þetta sé nákvæmlega spurningin sem þingsalurinn hér myndi nýtast sem best til að ræða. Ég er að vona að þessi skýrsla og umræðan um hana og þær ábendingar sem koma fram í henni verði okkur einmitt til gagns í nákvæmlega þessari ákvarðanatöku. Mér finnst þetta frábær punktur því að ég held að ekkert okkar vilji sjá fyrirkomulag þar sem ráðherra myndi alfarið bera einn ábyrgð og vera einhvers konar einvaldur í svona stórum ákvörðunum, maður myndi vilja hafa einhvers konar girðingar á því, en nú er ég bara að hugsa upphátt. Ég myndi fyrst og fremst fagna því að skoða það frumvarp sem mér skilst að sé í smíðum og tala nú ekki um, verandi kannski búin að læra hvað við hnutum um í þessari skýrslu og sem við viljum ekki að endurtaki sig, að taka mið af því í næstu umgjörð.