Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann minntist m.a. á hlutlægar reglur, reglur til að tryggja hlutlægni. Ég varð ekki var við þessar reglur og mér skildist á hv. þingmanni að hann hefði heldur ekki fundið þær en ef hann veit hvar þær eru þá væri gott að benda á það. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur gagnrýnivert að kynningar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Bankasýslu ríkisins á tilboðsfyrirkomulaginu fyrir Alþingi og almenningi hafi ekki verið til þess fallnar að varpa fullnægjandi ljósi á raunverulegt eðli tilboðsfyrirkomulagsins.“

Ég er algjörlega sammála þessari fullyrðingu. Það væri gott að fá að heyra álit hv. þingmanns á kynningunni sem við fengum t.d. í fjárlaganefnd, á þessu tilboðsfyrirkomulagi. Annað sem væri áhugavert að fá að heyra um varðar það sem segir á bls. 13 í skýrslunni:

„Stofnunin tók þá ákvörðun, að ráði ráðgjafa sinna, að leggja til við ráðherra að eignarhluturinn skyldi seldur á lægra verði að því er virðist til að ná fram öðrum markmiðum en forgangsmarkmiði sínu og meginreglu laga nr. 155/2012 um hagkvæmni eða hæsta verð.“

Forgangsmarkmiðið var, ef ég man rétt, að fá hæsta verð. Getur hv. þingmaður sagt til um það, hvort það hafi ekki örugglega verið hæsta verð? Meira að segja er ekki farið eftir markmiði sem lagt var upp með af ráðherranum sjálfum, það var tekið lægra verð, selt á genginu 117, ekki 122 sem var 120% eftirspurn eftir. Svo er það þetta blessaða huglæga mat, svo ég íþyngi hæstv. þingmanni með annarri spurningu. Huglægt mat — það segir þarna að það sé listgrein að selja. Það stangast á við lögin. Það á að gæta hlutlægni. Það er verið að tala um huglægt mat, að þetta sé meira einhver list eða vísindi, ég man ekki hvernig þetta er orðað nákvæmlega. En það virðist vera nánast að Bankasýslan sé af ásettu ráði að brjóta lögin eða að þeir séu svo algerlega úti á túni að þeir hafi ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera.