Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Afslátturinn kom fram í kynningu gesta, mig minnir ekki ráðherra og Bankasýslu, en það er ýjað að því að það sé hefðbundið að veita afslátt í tilboðsfyrirkomulagi í minnisblaði Bankasýslunnar frá því í janúar, að mig minnir. Það var kafli þar um svona tilboðsferli. Í umsögnum nokkurra aðila sem komu, það var Jón Daníelsson og einhverjir fleiri, Jón Þór — man ekki hvað hann heitir, afsakið — var talað einmitt um þetta ferli, þeir gáfu dæmi um að þessir hæfu fjárfestar væru lífeyrissjóðir o.s.frv. Þegar verið væri að reyna að fá inn stóran langtímafjárfesti, sem þetta tilboðsferli væri hannað fyrir, (Gripið fram í.) væri eðlilegt að gefa smá afslátt til þess að vera með hvata til að vera með til lengri tíma. Þannig að það kom fram. Hverjir þessir hæfu fjárfestar voru fengum við mjög lélega kynningu á frá ráðuneytinu og Bankasýslunni. Það bar að á svo skömmum tíma. Eina sem sést í því er í kynningu Bankasýslunnar eða minnisblaði Bankasýslunnar þar sem talað er um hæfa fjárfesta á borð við lífeyrissjóði og tryggingafélög sem hafi bolmagn og áhuga. Bolmagnið er lykilatriði. Það er einmitt sá hluti skýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallar um hversu léleg upplýsingagjöfin frá Bankasýslunni var til nefndarinnar. Og já, ég lít á þetta sem undirbúningsplagg, vörðu á leiðinni í áttina að rannsóknarnefnd, aðallega af því að við höfðum ákveðnar vísbendingar um brotalamir í þessu ferli í vor og þessi skýrsla bætir ofan á. Hún sýnir okkur í rauninni og staðfestir þau vandamál sem blöstu við okkur í vor og fer í áttina að því að segja að þarna hafi í raun og veru verið eiginleg, alvarleg lögbrot í ýtrasta skilningi þess.