Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:43]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum fyrir þessa umræðu sem við höfum átt hér í allan dag. Þær hafa verið góðar og ég vona að við getum fylgt þeim vel eftir núna í náinni framtíð. Það fylgir því mikil ábyrgð að selja ríkiseignir. Um það erum við öll sammála. Það þarf að huga vel að hverju einasta atriði og sjá til þess að allt það ferli sé yfir vafa hafið og útkoman sé góð fyrir almannahag. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé í hæsta máta óeðlilegt að ríkið skuli bera ábyrgð á nær öllu bankakerfinu hér á landi. Með því er áhættan fyrir ríkissjóð fyrir alla landsmenn einfaldlega of mikil.

Við þekkjum öll þá sögu hvernig eignarhald á öllum okkar bönkum færðist á hendur íslenska ríkisins í fjármálahruninu. Það var alveg ljóst þegar ríkið tók til sín bankana þrjá að stefnt skyldi að því að selja þá aftur um leið og aðstæður leyfðu. Ríkið á ekki að stunda samkeppnisrekstur, hvorki á fjármálamarkaði né öðrum mörkuðum. Því var það fagnaðarefni er ríkið seldi sig endanlega út úr Arion banka 2018 og hóf sölu á hlut sínum í Íslandsbanka á síðasta ári.

Frumútboð Íslandsbanka gekk vel í fyrra og náðust öll meginmarkmið með þeirri sölu á 35% hlut í bankanum. Þar var lagt upp með að ná fram breiðu eignarhaldi og því var það ánægjulegt að hluthafar urðu um 24.000 eftir útboðið. Ríkið fékk í sinn hlut rúma 55 milljarða.

Það er eindreginn ásetningur ríkisstjórnarinnar að tryggja heilbrigt umhverfi fjármálastarfsemi og treysta umgjörð hennar. Ríkisstjórnin er með það á stefnuskrá sinni að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum en á sama tíma að tryggja hagsmuni landsmanna. En hvað er það sem einkennir heilbrigt eignarhald? Samkvæmt hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lét gera 2018, kemur m.a. fram að það sem einkenni heilbrigt eignarhald sé traust. Eigendur þurfa að njóta óskoraðs trausts, eigendur verða að hafa langtímahugsun að leiðarljósi, hafa fjárhagslega burði, reynslu og þekkingu og fjölbreytt eignarhald. Allt eru þetta þættir sem lögð var áhersla á við sölu á Íslandsbanka. Við söluna nú í vor lagði hæstv. ráðherra áherslu á fjölbreytt eignarhald, þekkingu og reynslu fjárfesta, að fá að borðinu langtímafjárfesta sem myndu standa með bönkunum yfir tíma, og traust. Það var lagt af stað með að það myndi ríkja traust og gagnsæi um þessa sölu. Því miður virðist skýrsla ríkisendurskoðanda varpa ljósi á að í söluferlinu hafi verið annmarkar sem snúa aðallega að framkvæmd Bankasýslu ríkisins. Þegar þetta er samandregið er brotið á trausti almennings til framkvæmdarinnar. Það er miður og ljóst að það skorti á upplýsingagjöf til almennings.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að lesa það út úr skýrslu ríkisendurskoðanda að salan hafi ekki samrýmst lögum og góðum stjórnarháttum. Aftur á móti eru dregnir fram ýmsir annmarkar sem snúa fyrst og fremst að verklagi og upplýsingagjöf. Vert er að minnast á að salan í vor var eftir tilboðsfyrirkomulagi sem var verið að beita hér á landi í fyrsta sinn. Ríkisendurskoðandi telur að ekki hafi verið nægjanleg þekking né reynsla af því fyrirkomulagi til að leggja út í það verklag. Þetta er einkennileg athugasemd ef maður skoðar niðurstöðuna. Lokaniðurstaðan sýnir okkur svart á hvítu að útboðið gekk vel. Það náðist breytt og fjölbreytt eignarhald. Það náðist að fá mjög svo viðunandi verð fyrir hlutinn og sá afsláttur sem var gefið frá dagslokagengi var sá lægsti sem við höfum séð í sambærilegum útboðum banka í Evrópu á árinu. Til samanburðar má geta þess að írska ríkisstjórnin beitti sömu aðferð í tveimur sölum á írska bankanum Allied Irish Banks, þar var söluaðferðin sú sama og tímaramminn sambærilegur en afslátturinn umtalsvert hærri en í Íslandsbankasölunni eða 6,5% og 7,8% á meðan afslátturinn í Íslandsbanka var 4,1%. Það er áhugavert að á Írlandi hefur ekki myndast nein umræða varðandi þær bankasölur.

Í greinargerð ráðherra í aðdraganda sölunnar var lögð áhersla á að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum, að stuðla að fjölbreyttu heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta og ekki síst að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Það er athyglisvert að í skýrslunni er talað um að Bankasýslan hafi sett sér sem forgangsmarkmið að fá hæsta mögulega verð. Það er aftur á móti ekki ráðandi atriði í greinargerð ráðherra sem er grundvallargagn vegna sölunnar.

Virðulegi forseti. Horfum á stóru myndina. Ríkið hefur fengið 108 milljarða fyrir hlut í banka sem það fékk í hendur án endurgjalds sem stöðugleikaframlag úr slitabúi Glitnis árið 2016 og á enn þá 42,5% hlut. Verðmæti hluta ríkissjóðs hefur aukist um tugi milljarða í kjölfar vel heppnaðra skráningar á markað en 22% hlutur var seldur á 53 milljarða í mars. Svipað verð og 35% hlutur var seldur á sumarið 2021. Eftir frumútboðið síðasta sumar, þar sem þátttaka almennings var mikil, var bankinn fjölmennasta almenningshlutafélag á Íslandi. Hluthafar eru í dag yfir 15.000 en langstærstir eru lífeyrissjóðir og aðrir stórir langtímafjárfestar. Með skipulegum hætti hefur þannig verið unnið að því að draga ríkið út úr áhættusömum rekstri fjármálafyrirtækja og er ríkið nú minnihlutaeigandi í Íslandsbanka. Þeir fjármunir sem hafa verið losaðir munu nýtast í uppbyggingu innviða og til að greiða niður skuldir sem ekki er vanþörf á.

Eins og ég sagði í upphafi þá hef ég verið þeirrar skoðunar í langan tíma að ríkið eigi að losa um eignir sínar í bönkunum eins fljótt og verða má. Það eru gríðarlegar tækniframfarir í fjártækni og miklar breytingar fram undan, sérstaklega stafrænar eðlis. Ríkið er ekki góður eigandi til að drífa áfram þær nauðsynlegu breytingar sem þurfa að eiga sér stað í bankakerfinu. Ef ríkið losar ekki um þessar eignir er hætt við að það gæti lokast inni með verðminni eða jafnvel verðlausa eign eftir einhver ár. Horfum á stóru myndina. Margt gekk glimrandi vel í þessu útboði, annað ekki eins vel. Lærum af sögunni, klárum sölu á Íslandsbanka á næsta ári og nýtum það fé til uppbyggingar fyrir íslenskt samfélag. Þessi skýrsla mun reynast gott innlegg við áframhaldandi sölumeðferð á hlutum ríkisins í bönkunum.