Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:30]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef fengið andsvör frá honum áður og það er alltaf gaman þegar hann kemur hér upp og biður mann um að hætta einhverjum ákveðnum hlutum. Þetta er bara það sem ég hef skynjað í umræðunni, bæði hér í dag og þegar við vorum að ræða þetta mál í vor. Ég heyrði það hjá hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni áðan að skort hafi upp á það að ráðherra hefði fengið og kallað eftir rökstuddu mati — ég man ekki nákvæmlega orðalagið. En það kemur mjög skýrt fram á bls. 15, með leyfi forseta:

„Tillaga Bankasýslu ríkisins með rökstuddu mati hennar var send fjármála- og efnahagsráðherra með tölvupósti kl. 21.40, einungis 10 mínútum eftir að sölunni lauk.“

Undir þetta ritaði ráðherra. Ég hef skynjað það í umræðunni að stjórnarandstæðingar hafa einhvern veginn skautað fram hjá þessu. Ég hef leyft mér að túlka það þannig að þar sé átt við að ráðherrar hafi átt að fara inn í hvert og eitt tilboð.