Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að viðurkenna það bara einfaldlega og opinberlega að þetta sé hans eigin túlkun. Þetta er hvergi beint að finna í neinum orðum neins stjórnarandstöðuþingmanns. Alltaf þegar þetta hefur komið fram hefur viðkomandi þingmaður sem þetta hefur beinst að komið og útskýrt: Nei, þetta er röng túlkun á orðum. Verið er að snúa út úr.

En samt er þessu haldið áfram. Hv. þm. Hildur Sverrisdóttir var hérna áðan að tala um málefnalega umræðu og gerði það mjög vel. Ef við ætlum að ná einhvers konar ramma utan um þessa umræðu þá þurfa stjórnarliðar að hætta að leggja stjórnarandstöðunni orð í munn. Annars komumst við aldrei áfram með umræðuna um þetta mál og lendum alltaf í sama drullupyttinum sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um að væri hérna í umræðunni, sem hann ber sjálfur ágætlega mikla ábyrgð á.

Við skulum hafa það algerlega á hreinu að ráðherra átti ekki að fara í hvert eitt og einasta tilboð til að samþykkja viðkomandi eða ekki. Svo það sé sagt algerlega kýrskýrt: Það er ekki ætlunin hjá neinum hérna svo ég hafi orðið þess áskynja og það er ekki það sem átti að gerast. Það sem átti hins vegar að gerast er að þegar ráðherra fær rökstutt mat þá þarf hann að gera einhvers konar greiningar á því hvort þær forsendur sem hann leggur upp með fyrir söluna séu uppfylltar eða ekki. Ein af þeim greiningum sem ráðherra þarf að gera er að athuga hvort hann sé hæfur. Til að athuga hvort hann sé hæfur þá þarf vissulega að skoða hvert og eitt tilboð til að athuga hvort það séu einhver hagsmunatengsl þar á milli, ekki upp á það að hafna eða samþykkja viðkomandi tilboð heldur einungis til að athuga hagsmunatengsl, athuga hvort viðkomandi aðili falli undir þær kröfur sem ráðherra gerir sjálfur. Mjög einfalt.