154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.

478. mál
[16:24]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég myndi ekki taka undir það að menn hafi reynt að redda sér þarna út af þessu eða eitthvað slíkt. Fyrst og fremst held ég að það séu allir sammála um að þetta sé mjög stórt verkefni sem hafi vaxið mikið, þ.e. kostnaður við íslenskukennslu barna með annað tungumál, og að þetta sé sanngjarnt. Hitt er hins vegar umræða sem hægt er að taka. Það er auðvitað engin spurning og segir sig sjálft að þegar sveitarfélögum hefur fækkað úr 204 niður í 63 hefur á sama tíma litlum og óhagkvæmum skólum fækkað mjög mikið. Ein af þeim hugmyndum sem menn hafa verið með er að það væri í raun og veru minni þörf á jöfnun, það væri hægt að minnka sjóðinn, þ.e. sveitarfélögin fengju þar af leiðandi stærri hluta af þessum útsvarsstofni beint til sín og þar með myndu tekjur þeirra sveitarfélaga, eins og Reykjavíkurborgar, vaxa. En allar þessar pælingar verða auðvitað ekki að neinu þegar stærsta sveitarfélag landsins ákveður að fara í málaferli í raun gegn öllum hinum sveitarfélögunum í gegnum jöfnunarsjóðinn. Þá verður auðvitað engin samstaða í hópi sveitarfélaga. Þá getur ríkið sem frumkvæðisaðili að lagabreytingum ekki haft frumkvæði að því. Ég get sagt það í þessum ræðustól eins og bara alltaf að samtal er miklu skynsamlegra heldur en slagsmál og árásir, dómstólar, og væri hægt að finna leiðir til þess. Það er ekki hægt að gera hvort tveggja í einu.