154. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2023.

Náttúrufræðistofnun.

479. mál
[17:03]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Vissulega er það rétt að margt fleira mætti nefna. Ég tek þetta bara sem dæmi vegna þess að loftslagsbreytingarnar eru eitthvað sem við gerum okkur grein fyrir að eru ófyrirséðar og svona í fljótu bragði sé ég ekki alveg að það séu endilega margir aðilar í samkeppnisrekstri sem væru að sinna vöktun eða rannsóknum á íslenskri náttúru, sér í lagi í því samhengi. En gott og vel, þetta verður skoðað í samhenginu. Ég vil bara koma því á framfæri að þegar við erum að sameina og efla stofnanir, sem ég hef fulla trú á og sé ekki betur en að það sé markmið þessa frumvarps, þá tryggjum við að ekki sé gengið of nærri stofnunum eða vegið að getu þeirra til að sinna rannsóknum, í þessu tilfelli kortlagningu á náttúru Íslands.

Það er annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í, sem ég held að hann hafi aðeins komið inn á í framsöguræðu sinni, og það eru áform eða hugmyndir sem lágu fyrir á fyrri stigum um að annars vegar Íslenskar orkurannsóknir, gjarnan kallað ÍSOR, og hins vegar Veðurstofan yrðu hluti af þessu verkefni. Talandi um rannsóknir og ákveðna samlegð með verkefnum þá hefur núverandi Náttúrufræðistofnun Íslands með jarðminjaskráningu, þ.e. jarðfræðikortagerð, að gera en við vitum það líka að mjög stór hluti þeirrar þekkingar sem við búum yfir er einmitt að finna hjá B-hluta stofnunum eins og ÍSOR. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er það statt, þótt horfið hafi verið frá því að þessu sinni, að horfa til mögulegrar sameiningar ÍSOR og Veðurstofu Íslands inn í sterka og öfluga Náttúrufræðistofnun?