131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Viðskiptahættir tryggingafélaga og banka.

314. mál
[12:41]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. getur talað um sinnuleysi ef henni sýnist svo en ég mótmæli því að um það sé að ræða hvað þetta mál varðar. Ég lét það koma fram í svari mínu áðan að ég legg ríka áherslu á fullkomið sjálfstæði samkeppnisyfirvalda. Ég sagði einnig að ég hefði skrifað ákveðið bréf árið 2000 vegna olíufélaganna. Það má kannski segja að það sé undantekningin sem sannar regluna. Það eru einu afskiptin sem ég hef haft af því hvaða verkefni samkeppnisyfirvöld velja að setja í forgang og hvernig þau vinna. Mér finnst það vera mikið grundvallaratriði að fólkið í landinu geti treyst því að samkeppnisyfirvöld, sem eru fagyfirvöld á þessu sviði og hafa fagþekkingu til að meta markaðinn, vinni af sjálfstæði að málum sínum.

Af því að komið var inn á að stofnunin væri lömuð vegna fjárskorts og það vantaði 100 millj. kr. er það opinbert mál og hv. þm. stjórnarandstöðunnar vita vel að stjórnarflokkarnir hafa tekið þá ákvörðun að stórefla samkeppniseftirlit í landinu og það kostar þó nokkra peninga. Ég ætla ekki að nefna upphæðir í því sambandi en það fjármagn sem fer til samkeppnismála á næstu árum verður verulega aukið með þeim skipulagsbreytingum sem munu eiga sér stað og frumvörp munu birtast á næstu dögum sem sanna það.