131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Vatnajökulsþjóðgarður.

121. mál
[15:37]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ætli það hafi ekki komið fram í máli síðasta hv. ræðumanns um hvað þetta mál snýst. Það er verið að spekúlera í því að nota Langasjó til orkuöflunar og þess vegna eru ekki uppi neinar hugmyndir um það í ráðuneyti hæstv. umhverfisráðherra að hann verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það sem maður óttast er auðvitað það að þessi aðferð ríkisstjórnarinnar við að koma upp Vatnajökulsþjóðgarði — sem þó má þakka fyrir að virðist vera stefna hennar, a.m.k. hæstv. ráðherra, eins og kom fram í umræðu um daginn — er ákaflega óhentug. Í staðinn fyrir að búa til heildaráætlun um þennan þjóðgarð, ná samstöðu um hana og gera þá þar með grein fyrir því sem ekki er hægt að gera vegna þjóðgarðsins, er stigið eitt lítið skref í einu og tekin sum náttúrusvæði á staðnum og önnur skilin eftir. Þegar tvö svæði hlið við hlið eru þannig að annað er tekið og hitt skilið eftir er það náttúrlega bein ávísun á að það svæði sé ómerkilegt og eigi að vera til annarra nota, svo sem til vatnsveitu í tengslum við virkjanir. Þetta er ómögulegt ástand.