132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[13:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir tillögu meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 við 3. umr. um frumvarpið.

Nefndin fjallaði um málið eftir að 2. umr. lauk og hefur meiri hluti nefndarinnar lagt fram nokkrar tillögur til viðbótar því sem áður hefur komið fram og verið afgreitt á Alþingi. Samtals eru þessar tillögur til útgjaldaauka upp á 1.686 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2.

Í fyrsta lagi er um að ræða menntamálaráðuneytið, þ.e. hækkun á fjárheimild upp á 4 millj. kr. til Snorraverkefnis, sem er samskiptaverkefni við Vestur-Íslendinga. Á fjárlögum ársins var 1 millj. kr. fjárheimild til þessa verkefnis.

Varðandi utanríkisráðuneytið er lagt til að fjárheimild verði aukin um 11,9 millj. kr. til mannúðarmála og neyðaraðstoðar en í fyrri tillögum var lagt til að þær fjárhæðir yrðu 18,1 millj. kr. Hér er gert ráð fyrir að þær verði alls 30 millj. kr. Það er vegna jarðskjálftanna í Pakistan.

Varðandi landbúnaðarráðuneytið er lagt til að fjárheimild verði aukin um 430 millj. kr. Þar er um að ræða leiðréttingu á fyrri tillögu sem samþykkt var eftir 2. umr. og tengist sölu Lánasjóðs landbúnaðarins og fjárframlagi til Lífeyrissjóðs bænda.

Varðandi dóms- og kirkjumálaráðuneytið er lagt til að fjárheimild hækki um 40 millj. kr. Það er til Landhelgisgæslunnar vegna viðhaldskostnaðar á skipi og þyrlu.

Til félagsmálaráðuneytis er gert ráð fyrir að fjárheimildir hækki um 60 millj. kr. Það tengist samkomulagi aðila á vinnumarkaði um áframhaldandi gildi kjarasamninga.

Varðandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er lagt til að fjárheimildin aukist um alls 720 millj. kr. Það er vegna tekjutryggingar ellilífeyrisþega, að sú fjárhæð hækki um 456 millj. kr. og tekjutrygging örorkulífeyrisþega hækki um 264 millj. kr. Það tengist einnig samkomulagi aðila um kjarasamninga.

Varðandi fjármálaráðuneyti er lagt til að fjárheimild aukist um 500 millj. kr. Það er einnig í tengslum við samkomulag aðila um framhald á gildi kjarasamninga sem gert var nú á haustdögum.

Varðandi samgönguráðuneytið er lögð til leiðrétting á fjármögnun vegna vetrarþjónustu sem tillaga var samþykkt um við 2. umr. Sú leiðrétting hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að þessar tillögur verði samþykktar og vísa ég til þingskjala til nánari skýringa.

Að þessu áliti standa auk mín hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Bjarni Benediktsson, Birkir Jón Jónsson, Drífa Hjartardóttir og Guðmundur Hallvarðsson.

Að teknu tilliti til þeirra tillagna sem hér liggja fyrir og ég hef farið yfir mun tekjuafgangur á fjáraukalögum og fjárlögum ársins samtals verða um 91 milljarður kr. sem er nokkuð sem við höfum væntanlega ekki séð áður, hvort sem um er að ræða hlutfall tekjuafgangs af fjárlögum, hlutfall af landsframleiðslu eða annað.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli rennt yfir þessar tillögur og vísa til þingskjala til nánari skýringar.