135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

staða kjarasamninga sjómanna á smábátum.

238. mál
[18:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Frú forseti. Ég þykist þekkja svörin sem hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, las upp. Ég held að ef til vill sé um smámisskilning að ræða vegna þess að í þessum tilfellum eru ekki til nein samtök sjómanna sem eru á bátunum. Þeir eru ekki innan Sjómannasambands Íslands og sumir þeirra eru yfirmenn. Þeir eru skipstjórnarmenn á bátunum og telja sig ekki eiga samleið með Sjómannasambandinu. Þeir telja sig frekar eiga samleið með Farmanna- og fiskimannasambandinu eða Samtökum skipstjórnarmanna.

Það er dálítið skondin staða að geðþóttaákvarðanir útgerðarmanna skuli vera allsráðandi í þessu tilfelli. Hæstv. félagsmálaráðherra vitnaði í sjómannalög — ef þau dygðu nú og hefðu dugað hefðu sjómenn ekki staðið í kjarabaráttu eða kjaradeilum nánast í tugi ára eins og verið hefur. Sjómannalögin hafa alltaf verið til en þau duga ekki í þessu tilfelli.

Verðlagning á fiski, sem er sú aðferðafræði sem notuð er til að reikna út kaup manna, er geðþóttaákvörðun útgerðarmannanna og ég vona að því verði svarað hvort það sé brot á vinnulöggjöfinni. Ég hef staðið í þeirri meiningu að ef vinnuveitendur eru með fólk án kjarasamninga sé það brot á vinnulöggjöfinni.