136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:14]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér hefur verið rætt í dag um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að taka lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og undirgangast þær skuldbindingar sem hann leggur á í því sambandi. Tilefnið er jú sú alvarlega staða sem komin er upp, þ.e. hrun íslenska bankakerfisins og fjármálakerfisins og það að á íslenskt samfélag, almenning í landinu, falla skuldbindingar sem þessir aðilar höfðu gert erlendis upp á fleiri hundruð milljarða kr., það er talað um hátt á annað þúsund milljarða kr. sem íslenskur almenningur verður að taka á sig.

Maður veltir því fyrir sér líka hver staða almennings í landinu er í þessari umræðu. Við höfum fengið hvern forustumann stjórnvalda á fætur öðrum, það er sama hver er, hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde, hæstv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, seðlabankastjóri eða forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, allir segja: Þetta er ekki okkur að kenna heldur einhverjum öðrum.

Þegar ég horfði á stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins í sjónvarpinu í gær, Jón Sigurðsson, sem jafnframt er varaformaður stjórnar Seðlabankans, þá var ekki auðvelt að gera sér grein fyrir því hvort hann væri að svara sem stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins eða varaformaður stjórnar Seðlabankans, það rann í eitt, en það var alveg ljóst að ekkert var honum, hans embættum eða stofnunum að kenna, það var alveg ljóst. Almenningur stóð frammi fyrir því þegar hann var búinn að hlusta á Davíð Oddsson, Jón Sigurðsson, hæstv. ráðherra Geir Haarde og hæstv. ráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að ekkert var neinum að kenna. Eina sem almenningur fann var að á hann voru að hlaðast gríðarlegar skuldbindingar, erlend lán og skuldir. Almenningur stóð eftir og hugsaði: Bíddu við, er þetta þá bara allt mér að kenna? Þetta hlýtur að vera einhverjum að kenna, eitthvað hlýtur að hafa farið úrskeiðis, ekkert er að hjá stjórnvöldum en almenningur situr uppi með skuldbindingarnar, fleiri, fleiri milljónir króna á hvert fætt mannsbarn og næstu börn sem fæðast.

Halldór Kiljan Laxness segir í Heimsljósi, með leyfi forseta:

„Vinur, sagði Annar Heldrimaður og faðmaði skáldið. Það er búið að loka Bánkanum. Einglendíngar hafa lokað Bánkanum.

Það var og, sagði skáldið.

Og hvernig stendur á því að einglendíngar hafa lokað Bánkanum, sagði Annar Heldrimaður. Það er af því að það eru aungvir peníngar leingur í Bánkanum. Júel er búinn að tæma Bánkann. Júel er búinn að sólunda öllu því fé sem einglendíngar lánuðu þessari ógæfusömu þjóð af hjartagæsku. Júel hefur sökt öllu fé einglendínga útí hafsauga. Þessvegna er búið að loka Bánkanum.“

Já, eitt er víst, þ.e. að almenningur stendur frammi fyrir því að það er búið að tæma bankana en það er ekki neinum að kenna.

Það var afar athyglisvert að sjá í fréttatilkynningu frá Hagspá Landsbankans sem birtist í Vegvísi Landsbankans 23. september sl. sem hafði það að yfirskrift: Af hverju eru langtímahorfur öfundsverðar? Í textanum segir, með leyfi forseta:

„Yfirskrift Hagspár Landsbankans 2008–2012 er sótt í skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um Ísland. IMF hefur um árabil bent á að langtímahorfur fyrir íslenska hagkerfið séu að mörgu leyti öfundsverðar. Þeir sem gleggst fylgjast með íslenskum efnahagsmálum benda jafnan á nokkra lykilþætti sem leggja grunn að sterkri stöðu þjóðarbúsins til framtíðar.“

Þetta var tilvitnun í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Landsbankann síðustu dagana í september. Hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir áðan? Jú, það var svo mikilvægt að sækja ráð erlendis, sækja ráð og ráðgjöf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem sagði að allt væri mjög gott, einkavæðingin hefði tekist vel, það hefur verið megininntak Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að einkavæðing íslensku bankanna hefði tekist vel og þess vegna var sjálfsagt að sækja ráð þangað.

Hæstv. utanríkisráðherra minntist ekki á að kannski var mest þörfin á að sækja siðferðislega endurbót, (Gripið fram í: Hvað er það?) já, hvað er það? Það er eitthvað sem ekki þekkist í munnum hæstv. ráðherra. Hér hefur verið kallað eftir tillögum og ábendingum Vinstri grænna. Hverjir voru það sem vöruðu við einkavæðingu bankanna á sínum tíma, lögðu áherslu á að a.m.k. einum banka væri haldið eftir og að skil væru gerð á milli venjulegs viðskiptabanka og fjárfestingarsjóðs? Hverjir voru það sem lögðu til að það yrði skilið á milli innlendrar og erlendrar starfsemi? Þeir sem lögðu slíkt til voru sagðir vera á móti framtíðinni. Hefði þetta samt verið gert værum við í dag ekki í þeim sporum sem við erum í nú.

Hvað gerðist svo seint, þ.e. í mars á þessu ári, og miðað við alla fundi seðlabankastjóra þar sem hann var að kynna þennan þátt með ríkisstjórninni á árinu og vara við? Samt er tekin sú ákvörðun 25. mars af Seðlabanka Íslands að afnema bindiskyldu á íslenskum bönkum erlendis. Þegar við þingmenn Vinstri grænna spurðum hvers vegna væri verið að gera það var svarið: Þetta er nauðsynlegt til þess að styrkja samkeppnisstöðu þeirra erlendis. Bindiskylda á bönkum erlendis mátti ekki vera á af því að hún skerti samkeppnisstöðu þeirra. Hafði seðlabankastjóri ekki þá þegar haldið eina tvo eða þrjá fundi með ríkisstjórninni, eða einhverjum þeim hluta hennar sem hefur viðurkennt að hafa setið þá fundi, og varað við þeirri hættu sem blasti við? Samt er þetta gert.

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á í hverju styrkur okkar liggur. Hann liggur í hinni sterku ímynd landsins sem er náttúran, fólkið og menningin. Það er samfélagið sem er styrkur okkar. Þessa þætti eigum við að setja númer eitt í forgangsröðinni nú þegar við erum að verja fjármunum og leggja áherslur af hálfu ríkisins. Ég geri mér grein fyrir því að fjármálafyrirtækin eru mjög mikilvæg og það að koma krónunni á markað er mjög mikilvægt. En áhersla ríkisstjórnarinnar beinist að því að koma krónunni á einhvern gjaldeyrismarkað, það er sett í algjöran forgrunn, umfram og langt fram úr stöðu og vernd heimilanna.

Hvað var það fyrsta sem gert var að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Jú, það var að stórhækka vexti, sem er vitað mál að sligar atvinnulífið og þær atvinnugreinar sem nú eiga að verða til að skapa okkur gjaldeyrisforða á ný. Hver var tilkynningin sem send var út fyrir helgina? Það var boðaður flatur 10% niðurskurður og sent fyrst á sjúkrahúsin. Hvað hafði samt verið sagt áður? Að menn ætluðu að sameinast um að standa vörð um velferðarkerfið. Menn ætluðu að sameinast um að standa vörð um atvinnuskapandi aðgerðir en slá frekar á þær aðgerðir sem krefjast mikils innflutts tæknibúnaðar.

Fyrstu tilskipanir ríkisstjórnarinnar eru að rjúfa þessa sátt, (Forseti hringir.) segja ósatt, krefjast niðurskurðar í velferðarþjónustunni. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Við eigum að trúa á land okkar og þjóð og fólkið okkar en ekki að vera stöðugt að reyna að blekkja það með því að segja því ósatt. Í gegnum sannleikann tökumst við á um þetta (Forseti hringir.) en ekki í gegnum lygina.