137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að það verður okkur dýrt ef ekki tekst vel til með sparisjóðaumhverfið í landinu.

Það er auðvitað enginn endanlegur sannleikur í lögum og við skulum átta okkur á því að starfsumhverfi þessara fjármálafyrirtækja, meðal annars sparisjóðanna sem við erum að fást við hér, er mjög kvikt og það kann vel að vera að það muni kalla áfram á breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki eins og hefur reynst í kjölfar bankakreppunnar. Ég hygg að þetta sé í fimmta sinn sem farið er inn í lögin eftir að bankakreppan varð.

Hv. þingmaður verður að virða mér það til vorkunnar að ég tók þátt í þeim breytingum flestum og þær voru margar hverjar, sérstaklega framan af vetri, afgreiddar án þess að vera sendar út til umsagnar og jafnvel á einni nóttu svo það sé bara rifjað upp og sagt hér. Við þurfum líka að muna að Ísland er hluti af stærra lagaumhverfi þannig að það kallar líka oft á breytingar.

Erindi mitt, frú forseti, hingað í þennan stól var aðallega að minna á það að þrátt fyrir mjög ítarlega umsögn Fjármálaeftirlitsins varð það niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að taka ekki tillit til þeirra sjónarmiða sem þar voru reifuð. Það var meðal annars gert vegna þess að í umsögn ráðuneytis um þau atriði sem helst voru gerðar athugasemdir við, þ.e. umsögnin gaf ekki tilefni til þess að eftir athugasemdunum væri farið. Ég vil sérstaklega nefna hér eitt sem er stærsta ágreiningsefnið sem varðar Fjármálaeftirlitið og reyndar Samkeppniseftirlitið líka, varðar 9. gr. um útvistun verkefna. Það var farið yfir þessa umsögn á fundi nefndarinnar og ég tel ekki að fengist hefði önnur niðurstaða í því máli enda þótt það hefðu verið haldnir fleiri fundir eða þó að við hefðum geymt þetta fram á haustið.