137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[20:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Alla vega kannski ekki ef löggjafarvaldið ætlar að ganga fram með þeim hætti sem verið er að gera hér gagnvart stofnfjáreigendum. Menn hafa talað um að stofnfjáreigendur fái að halda eftir 5, 10–15% og það sé einmitt hugsað til að fá fólk til að halda viðskiptum áfram við sparisjóðina. Ég verð að segja að ef ég stæði eftir í þeirri aðstöðu mundi ég kannski hugsa mig tvisvar um það hvort ég gæti ekki fært mig eitthvað annað, kannski til einhvers sparisjóðs sem ég gæti hugsanlega styrkt sem mundi ekki taka á móti framlaginu frá ríkinu. Mér finnst það engan veginn hafa komið fram í vinnunni hvernig þetta mun raunverulega styrkja sparisjóðakerfið, þ.e. að ríkisvæða það. Það er algerlega ljóst að ef sparisjóður verður gjaldþrota þá tapa stofnfjáreigendur sínum peningum. En hins vegar erum við ekki að tala um að setja sparisjóðakerfið — er það málið, að við ætlum að fara að setja sparisjóðakerfið í þrot? Eigum við að fara að gera upp sparisjóðina? Nei, ríkið er að breyta lögunum, leikreglunum eftir á til að tryggja að þeir þurfi ekki að fara í þrot. Hver er ástæðan fyrir því? Það er vegna þess að ríkið vill ekki þurfa að borga 250 milljarða í þeim innstæðum sem eru inni í sparisjóðunum. Ég sé ekkert réttlæti í því sem er í 7. gr. og mér finnst það mjög leitt að menn skuli ekki hafa verið tilbúnir til að ræða að menn hafi að einhverju leyti getað einmitt fært niður stofnfé í nafnvirði einn, eins og það sem fólk gekk að og skildi löggjöfina þannig. Ég verð að segja að ég fagna því að það skuli vera einhverjir stjórnarþingmenn sem eru að íhuga málin hvort þetta sé rétta leiðin.

Ég vil að lokum hins vegar þakka formanni kærlega fyrir samstarfið í nefndinni varðandi þetta mál. (Forseti hringir.) Hún hefur haldið mjög vel utan um það (Forseti hringir.) og keyrt það vel áfram þó að við séum mjög ósammála varðandi niðurstöðuna á málinu.