138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hv. þm. Oddný Harðardóttir vilji halda í þá hugmynd að þetta sé hluti af lausninni en ég er ekki sammála henni varðandi það. Það er náttúrlega mjög sláandi að sjá í þessari ályktun þingsins hvernig Evrópusambandslöndin, eins og þau hafa gert í gegnum allt ferlið, tengja þessi mál saman. Það hefur svo sem alltaf legið fyrir að Evrópusambandið tekur ekki fagnandi á móti ríkjum sem eru í deilum við aðildarríki, það hefur verið vandamál hjá fleiri ríkjum og þar með hafa umsóknir stoppað.

Ég spyr, af því að ég tók ekki eftir því í svari hv. þingmanns, um tengsl Evrópusambandsins við þetta mál gegnumgangandi. Telur hún að þetta skýri hina nýju tímapressu sem geri það að verkum að nú þarf allt í einu að halda fundi fram á nótt en ekki bara til tólf eins og við erum kannski orðin vön?