138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir skýra, efnismikla og greinargóða ræðu. Töluvert hefur verið fjallað um þetta mál hér í þingsölum í dag og talað hefur verið á þann hátt að stjórnarandstæðingar hafi í raun engar lausnir á málinu og ekkert til málanna að leggja. Ég veit að hv. þingmaður hefur sterkar skoðanir á þessu og kom aðeins inn á þær í ræðu sinni, en ef okkur tækist nú að sannfæra stjórnarliða algjörlega um að rétt væri að segja nei — í gildi eru jú lög sem Alþingi samþykkti í sumar — hvernig feril sæi hv. þingmaður þá fyrir sér?

Nú er það svo að maður er orðinn svolítið ringlaður í því hvað stjórnarliðar eru að meina. Hæstv. fjármálaráðherra hingað í pontu áðan í andsvari og sagði að klára yrði þetta mál fyrir 30. nóvember, á meðan hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem er í öðrum stjórnarflokknum, nefndi undir öðrum lið í dag að hægt væri að ræða þetta og klára í febrúar. (Forseti hringir.) Sér hv. þingmaður þessa tímapressu í einhverju öðru ljósi en ég? Er hún með skýrari sýn á hug stjórnarþingmanna?