138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Nú hef ég kannski ekki alveg náð því hvaða skýrslu er spurt um, en samkvæmt lögunum frá því í sumar ber fjármálaráðherra að upplýsa Alþingi árlega um stöðu þessara mála, hvað innheimtu eigna líður og hvernig staðan er. Það verður að sjálfsögðu gert. Ef ég man rétt er það fyrir 1. apríl á næsta ári sem í fyrsta skipti ætti að skila slíkri skýrslu sérstaklega vegna Landsbankans á grundvelli laganna frá því í ágúst. Aðrar skýrslur og gögn eru þá fyrst og fremst rannsóknarskýrsla Alþingis og svo auðvitað rannsókn mála sem fer eftir hefðbundnum farvegi í réttarkerfinu.

Að öðru leyti er að sjálfsögðu rétt og skylt að greina frá gangi mála eftir því sem efni gefa tilefni til.

Varðandi skilanefndir starfa þær að sjálfsögðu á grunni laga og eðli málsins samkvæmt gæta þær hagsmuna kröfuhafa í búið og svara til tiltekinnar ábyrgðar gagnvart þeim. Þær voru skipaðar af stjórnvöldum á grundvelli neyðarlaganna. Þær heyra undir Fjármálaeftirlit (Forseti hringir.) og efnahags- og viðskiptaráðuneyti.